145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

um fundarstjórn.

[12:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek líka undir það sem hér var sagt og ég vil benda hv. málshefjanda á það að þrátt fyrir að heilbrigðisráðherra hafi setið hér þegar málið var flutt síðast eru hér inni þingmenn sem eiga kannski eftir að taka til máls, sem voru ekki þá, og hafa ekki haft tækifæri, óski þeir þess, til að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra og spyrja hann út í tengingu við lýðheilsustefnu eða hvaða aðrar þær spurningar sem þeir þingmenn mundu kjósa að spyrja ráðherrann.

Við hv. þingmaður höfum átt samtal um þessi mál og ég hef sagt að þetta snúist um hvort tveggja, lýðheilsumál og aðgengismál. Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra heilbrigðismála — við stöndum frammi fyrir því í dag að við ráðum ekki við afleiðingar áfengis og vímuefna — segi okkur og sýni fram á það (Forseti hringir.) hvernig hann telur að svona mál sé til framdráttar lýðheilsustefnu landsins.