145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á einni mínútu felur einstaklingsfrelsi fyrst og fremst í sér óskoraðan rétt einstaklings til að gera það sem honum sýnist svo lengi sem það varðar fyrst og fremst hann einan. Viðskiptafrelsi eða verslunarfrelsi er félagsleg athöfn. Verslun varðar hagsmuni samfélagsins alls og félagsleg samskipti. Að því leytinu til er réttmætt að gera ákveðinn greinarmun á einstaklingsfrelsi, þ.e. frelsinu til að gera það sem varðar mann sjálfan, en verslunarfrelsi hefur hins vegar áhrif á hagsmuni samfélagsins alls. Því getum við ekki, hvorki ég né hv. þingmaður sem hér spyr, haldið því fram til að mynda að ríki Bandaríkjanna eða Svíþjóð séu ekki frjálslynd samfélög þótt þau setji ákveðnar skorður við verslunarfrelsi, að það hafi endilega áhrif á einstaklingsfrelsi þeirra sem þar búa.