145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni um þá staðreynd að áfengisneysla mun aukast finnst mér kjarninn liggja í þeirri spurningu sem fylgir og menn þurfa að vera tilbúnir til að svara: Er jákvætt að áfengisneysla aukist? Svarið við því að mínu mati er nei. Ég held að það sé ekki mjög jákvætt að það gerist. Þá eru nokkur rök sem fylgja því. Ég get alveg svarað hv. þingmanni að það er ekki víma fólks sem slík sem ræður för þar, það er fyrst og fremst sjónarmið sem varða þá sem þurfa að vera viðstaddir þessa neyslu. Það er auðvitað mjög óþægilegt fyrir fólk að þurfa að vera viðstatt drukkið ættmenni, það er mjög óþægilegt fyrir börn að upplifa foreldra sína í annarlegu ástandi. Það gerist auðvitað, en það má færa fyrir því rök að með aukinni áfengisneyslu muni það gerast í auknum mæli. Það hlýtur að birtast með einhverjum hætti þar.

Síðan er það staðreynd að aukin áfengisneysla hefur í för með sér aukna ofbeldisglæpi. Hún hefur í för með sér fleiri brot á umferðarlögum, það verður meira um ölvunarakstur. Hún hefur í för með sér meiri óspektir, meira eignatjón. Það verður meira um útköll lögreglu. Það verður meira um slys á fólki. Þegar áfengisneysla eykst þá aukast allir þessir hlutir sem eru fylgifiskar áfengisneyslunnar. Í þeim öllum felst gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið. Eins og Róbert H. Haraldsson rekur í grein sinni í Fréttablaðinu í gær þá er auðvitað mikill viðskiptaauki og virðisauki fyrir verslunina í landinu að geta þetta og það er hægðarauki fyrir neytendur sem nota áfengi, en kostnaðurinn (Forseti hringir.) við þessa auknu neyslu lendir á samfélaginu öllu.