145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll og launakröfur ríkisstarfsmanna.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta er saga deilna á vinnumarkaði, sem var þjappað hér saman í stutta spurningu til mín. Hvers vegna fá ekki bara allir eins mikla hækkun og sá sem mest fékk? Við Íslendingar eigum áratugalanga sögu þessa samtals. Menn koma sundraðir að borðinu, menn knýja fram hækkun með verkföllum, með því að taka skurðstofur á Landspítalanum í gíslingu, með því að lama samgöngur til og frá landinu, með því að lama starfsemi mikilvægra stofnana, sama hvar það er, best að forðast að nefna einstök dæmi. Þið þekkið þessi dæmi, það þarf ekki einu sinni að leita dæmanna í þeim deilum sem núna standa yfir því að við eigum áratugalanga sögu. Ég er einn af þeim sem útskrifuðust ekki eftir próf úr Menntaskólanum í Reykjavík vegna þess að verkfall hafði staðið svo lengi árið 1989 að það þurfti í fyrsta skipti í sögu skólans að fella niður próf og gefa kennaraeinkunnir. Það sama gerðist líka þegar ég var í grunnskóla, þá voru verkföll á verkföll ofan. (Forseti hringir.) Þetta er saga íslenska vinnumarkaðarins og við þurfum að komast út úr henni. Við gerum það ekki með því að spyrja: Eru þetta ekki sanngjarnar kröfur? (Forseti hringir.) Við hljótum að fallast á þær! — vegna þess að þá kemur næsti hópur og svo næsti og svo næsti, höfrungahlaupið heldur áfram.

Hvað ætla ég að gera? er spurt. Ég er með samtal í gangi, (Forseti hringir.) það er verið að funda núna. Við ætlum að leysa þetta mál.