145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög nauðsynleg, ekki síst nú á tímum og í þeirri umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið um flóttamenn. Ég held að enginn vafi sé á því að efnahagslegur ávinningur þjóðarinnar verði mikill ef við tökum við flóttamönnum eða innflytjendum. En við þurfum að marka okkur skýra og góða stefnu í innflytjendamálum og vanda okkur í því eins og öllu öðru.

Ég vil benda á að nú þegar eru innflytjendur og útlendingar nánast hryggjarstykkið í aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, sem er sjávarútvegur. Ég get nefnt sem dæmi á Suðurnesjum, þar eru 70–80% starfsmanna í fiskvinnslu útlendingar og hafa verið um langt skeið. Ég velti líka fyrir mér að við þurfum að hugsa þessi mál mjög „grundigt“ á næstunni, því að miðað við þau plön sem maður hefur séð kynnt eins og Masterplan frá Isavia suður á Keflavíkurflugvelli og fleiri mál sem er verið að vinna að þar, svo ég taki dæmi, þá sé ég ekki fram á annað en að við þurfum svona tvö, þrjú þúsund manns á næstu árum, kannski næsta áratug, til að sinna þessum störfum. Ég held að við eigum að taka fagnandi við öllum sem hingað vilja flytja.