145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Vegna þess sem sagt var hér áðan um neyslustýringuna þá lít ég ekki alveg þannig á það. Ég sé það sem gríðarlegan sparnað á innflutningi á eldsneyti þannig að það er í raun kostnaðarhagræðing sem slík. Það eru útgjöld við eldsneytið sem ekki kæmu til við notkun á innlendri raforku á bíla. Það væri ekki neyslustýring beint heldur kostaði það einfaldlega minna og þá þarf ekki að rukka á sama hátt.

Ég vildi bæta við í þessa umræðu að mér finnst vanta rannsóknir á aðstæðum Íslands hvað varðar notkun á svona farartækjum. Það tekur tíma að hlaða. Það væri mjög hentugt ef bifreiðar væru þannig útbúnar að hægt væri að kippa út rafhlöðu og setja forhlaðna rafhlöðu í, þá þyrfti ekki að eyða heilum sólarhring í að hlaða bílinn til að hann sé nothæfur. Það eru kannski aðeins öðruvísi aðstæður sem ég mundi vilja ræða.