145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

háskólarnir í Norðvesturkjördæmi.

201. mál
[17:02]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ísland er örsamfélag. Getur það gengið? Já, það getur gengið og hefur verið sýnt fram á að það gengur bara ágætlega. Það má líka segja um þá þrjá háskóla í Norðvesturkjördæmi sem hafa vissulega setið uppi með skuldir og hafa átt í fjárhagslegum erfiðleikum og eru ólíkrar gerðar. Þarna eru tveir landbúnaðarháskólar og svo Háskólinn á Bifröst sem er með lögfræði- og viðskiptagreinar í fyrirrúmi. En ég tel ómögulegt og óásættanlegt að það sé endalaus óvissa með framtíð þessara skóla.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur undanfarin missiri staðið frammi fyrir óvissu gagnvart framtíðinni, bæði nemendur og kennarar. Og það verður að fara að taka ákvarðanir í þessu máli, auðvitað á faglegum grunni en líka að horfa til þess að það hefur komið út skýrsla — ég held að Vífill Karlsson hafi gefið hana út og kynnt okkur þingmönnum kjördæmisins — sem sýnir fram á (Forseti hringir.) að smærri háskólar að erlendri fyrirmynd hafa bara gengið ágætlega.