145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vakna ýmsar spurningar við þetta stóra mál sem er á borði okkar þingmanna. Hv. þingmaður kom inn á að aðstæður staðgöngumæðra til dæmis á Indlandi mundu breytast við þessa löggjöf hjá okkur. Nú er alveg opnað á að hægt sé að fara til útlanda og nýta sér staðgöngumæðrun þar. Hvað nákvæmlega er það í þessari löggjöf sem tryggir rétt indversku konunnar og það að fólk notfæri sér ekki að hún sé fátæk og í félagsleg erfiðri stöðu og mikill þrýstingur á að hún gerist staðgöngumóðir þar sem hún hagnast á því? Hvað nákvæmlega er í löggjöfinni sem við getum fylgt eftir þannig að komið sé fram við indverskar konur á sama hátt og við teljum samkvæmt löggjöfinni að tryggja eigi rétta þeirra kvenna sem hugsanlega mundu verða staðgöngumæður á Íslandi?

Mig langar að spyrja hv. þingmann persónulegrar spurningar: Telur hann að það sé konum eðlislægt að vera framleiðslutæki? Getur hann litið á það þannig að konan sé eins konar náttúruauðlind í nýtingarflokki? Mér finnst svo óvarlega talað um líkama konunnar, eins og hún sé hýsill, þótt ég virði vissulega það sjónarmið að það sé mikil ógæfa að geta ekki eignast börn.