145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[17:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningar hv. þingmanns liggur fyrir viðmið um æskilegan biðtíma. Það hefur komið fram hér í umræðu um aðgerðir til að vinna á biðlistum í íslenskri heilbrigðisþjónustu að viðmiðið sem landlæknisembættið vinnur með er sirka þrír mánuðir, breytilegt að sjálfsögðu eftir því hversu áríðandi verkefnin eru. Meginlínan er samt sú.

Ég minnist þess úr umræðu um þetta mál og kostnaðarumsögninni síðast þegar þetta var rætt að skriffinnskan og „batteríið“ sem setja þarf upp út af fyrirframsamþykki við svona lagað er alveg gríðarlega mikið og kostnaðarsamt. Til viðbótar þeim fyrirvara sem ég hef við þann kostnað liggur fyrir að í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum um reynslu Austurríkis, Hollands, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs gengur framkvæmdin á þessu ákvæði betur með þeim hætti en þar sem krafan er gerð um fyrirframsamþykki. Það er mat þeirra sérfræðinga sem með þetta mál hafa sýslað. Á þeim grunni kemur málið inn með þeim hætti núna að sú breyting er gerð að fallið er frá kröfunni um fyrirframsamþykki.