145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Auðvitað getur verkstjóri ríkisstjórnarinnar ekki skotið sér undan því að svara fyrir eitt helsta stefnumál og eitt af stærri stefnumálum ríkisstjórnarinnar sem er afnám verðtryggingarinnar. Þar fyrir utan var þetta kosningaloforð hæstv. forsætisráðherra. Þetta er alveg hreint með endemum. Hann sagði fyrir kosningar að þetta væri lítið verk, hann sagði ekki að það væri löðurmannlegt en hann sagði að þetta væri lítið verk og tæki stuttan tíma. Hann getur ekki núna hlaupið í felur og sent þingmenn í flokki sínum upp í pontu til að beina spjótum að hæstv. fjármálaráðherra. Fjármálaráðherrann hefur sagt að það sé ekki hægt og hann vilji ekki afnema verðtrygginguna. (Forseti hringir.) Framsóknarflokkurinn verður að eiga þetta við sjálfan sig og forsætisráðherrann verður að svara okkur hér í þinginu.