145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

beiðni um umræðu um afnám verðtryggingar.

[15:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að hinkra með það að væna Framsóknarflokkinn um vanefndir í verðtryggingarmálum þangað til kjörtímabilið er búið. En staðreyndin er hins vegar sú að aldrei hefur neinn flokkur gefið viðlíka kosningaloforð og Framsóknarflokkurinn í síðustu kosningum sem var um afnám verðtryggingar og það var ekki á miðju kjörtímabili og ekki undir lok þess. Það var tafarlaust afnám verðtryggingar strax eftir kosningar.

Ég sat marga framboðsfundi með frambjóðendum Framsóknarflokksins í mínu kjördæmi og það var spurt mjög nákvæmlega að þessu af kjósendum af því að fjöldi manns kaus flokkinn gagngert út á þetta loforð. Þess vegna er bókstaflega óhugsandi annað en að hæstv. forsætisráðherra komi og standi fyrir þessu langstærsta máli sínu og síns flokks hér í þingsölum, það er óhugsandi annað vegna þess að það er bókstaflega hægt að fullyrða að hæstv. forsætisráðherra sitji í stól sínum í skjóli þessa kosningaloforðs. Þess vegna er kallað eftir því að hann standi fyrir máli sínu og svari fyrir tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar.