145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta forgangsmál ríkisstjórnarinnar er eitt af fáum málum sem er komið fram á þessu þingi. Það er dálítið merkilegt því að við siglum inn í nóvember í næstu viku og þá viku er ekkert þinghald. Hér eru afar fá mál á dagskrá frá ríkisstjórninni. Það er ljóst að niðurlagning Þróunarsamvinnustofnunar virðist vera eitt af aðalforgangsmálum þessarar ríkisstjórnar á meðan önnur mál fá að bíða, eins og húsnæðisfrumvörp og mál sem maður hefði talið að ættu að hafa meiri forgang ef marka má hvað fólk telur almennt mikilvægt. Þetta er það mál sem við í stjórnarandstöðunni fáum upp í hendurnar sem forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Ég furða mig satt að segja talsvert á því í ljósi þess að ég hef ekki enn, eins og kom fram í andsvari mínu áðan, heyrt fullnægjandi fagleg rök fyrir því að þessi breyting hafi verið lögð til.

Í umræðum í hv. utanríkismálanefnd á síðasta þingi og líka hér í þingsal komu fram mjög veigamikil rök gegn þeirri breytingu sem hér er lögð til. Nú kynni einhver að spyrja, eðlilega: Hví er svona mikið veður gert út af breytingu sem snýst fyrst og fremst um form en ekki inntak? Af hverju erum við að æsa okkur yfir því? Það er mjög mikilvægt þegar kemur að stjórnsýslunni að við vöndum okkur með formið, að við vöndum hvernig við byggjum upp stofnanir stjórnsýslunnar. Margar skýrslur og margar greiningar hafa verið unnar á undanförnum árum um hvernig megi best standa að því að hafa hér styrka, gagnsæja og góða stjórnsýslu. Af hverju skiptir það máli? Það skiptir máli fyrir almenning í landinu svo að hann geti treyst á stofnanir stjórnsýslunnar.

Hluti af því sem hefur komið fram í öllum þessum greiningum er meðal annars það að styrkja þurfi ráðuneyti. Því hefur verið haldið fram hér, t.d. af hæstv. ráðherra, að með þessari breytingu verði utanríkisráðuneytið styrkt. En erum við að styrkja ráðuneyti með því að sameina fagstofnun, sem fer með tiltekin framkvæmdaratriði, við ráðuneyti sem er stjórnsýslustofnunin sem hefur pólitísku hlutverki að gegna og á annars vegar að setja stefnuna í samráði við Alþingi og hins vegar að annast stjórnsýsluna með því að hafa eftirlit með framkvæmdinni? Ég sagði það hér á síðasta þingi og ég endurtek það nú að ég tel ekkert hafa breyst í málinu sem hefur sannfært mig um neitt annað en að það er í hæsta máta undarlegt að við ætlum að færa alla fjármuni til þróunarsamvinnu inn í ráðuneytið og leggja niður fagstofnunina þar sem sérfræðiþekkingin er fyrir hendi. Ráðuneytið lýtur allt öðrum lögmálum, eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem er fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, en stofnun sem starfar á fagsviði með flutningsskyldu þar sem fólk fer á milli pósta. Þar myndast ekki sérfræðiþekking að sama skapi og gerist í fagstofnunum með tiltekið verkefni. Ég fæ ekki séð að þetta verði til þess að styrkja hlutverk ráðuneytisins.

Ég hef verulegar áhyggjur af því sem ég kom inn á í andsvari mínu hér áðan og það er að þetta muni gera málaflokkinn ógagnsærri. Það er verið að færa mikla fjármuni til inn í ráðuneytið. Það er algjörlega óljóst hvernig eftirliti með þessum fjármunum verður háttað. Hér hefur Ríkisendurskoðun verið nefnd. Við köllum ekki alltaf Ríkisendurskoðun til í reglulegt eftirlit. Það hefur verið sagt að reistir verði eldveggir í ráðuneytinu þannig að þar verði markvisst innra eftirlit. Finnst okkur það fullnægjandi? Finnst okkur það fullnægjandi þegar um er að ræða svo viðkvæma málaflokk sem hefur verið mikið til umræðu víða annars staðar í Evrópu einmitt vegna þess að almenningur hefur svo litla yfirsýn yfir hvernig peningunum er varið nema þeim mun betur sé staðið að eftirliti með því og upplýsingamiðlun um það? Ég vil líka benda á að víða þar sem þróunarsamvinnustofnanir hafa verið færðar undir ráðuneyti hefur það verið gert með sérstökum ráðstöfunum og jafnvel sérstökum stofnunum innan ráðuneyta. Þetta er alls ekki einfalt. Aðrar þjóðir hafa vissulega verið að takast á við nákvæmlega sömu spurningu um eftirlitið.

Ég vil nota tækifærið hér og mæla þessi varnaðarorð: Ég held að við séum að taka áhættu með því að breyta fyrirkomulagi sem ég hef engan heyrt hallmæla. Það hefur enginn þorað að hallmæla þessu fyrirkomulagi hér í pontu. Allir segja: Þróunarsamvinnustofnun er frábær stofnun. Við erum að taka áhættu með því að taka stofnun sem þykir góð, fær góða útkomu í úttektum og þykir sinna starfi sínu vel og færa hana inn í ráðuneyti og við vitum eiginlega ekkert af hverju. Eins og kom fram í viðtalinu sem ég vitnaði til áðan við stjórnsýslufræðinginn Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur þá varaði hún við því að gagnsæi mundi minnka og möguleikar ráðherra á hverjum tíma til að hafa aukin áhrif yrðu meiri því að öll framlög mundu lenda í einum potti. Það er réttmæt athugasemd hjá stjórnsýslufræðingnum að ráðuneyti eru annars eðlis en fagstofnanir og það mundi teljast fáheyrt, eins og hún benti á, ef Ríkisendurskoðun færi í stjórnsýsluúttekt á utanríkisráðuneytinu. Sjáum við það gerast? Viljum við endilega bjóða upp á að það gerist með því að setja þennan málaflokk alfarið inn í ráðuneytið?

Ég segi: Ekki gera við það sem er ekki bilað. Gömul speki og ný. Ég hef virkilega leitað eftir því hvað sé bilað. Hvað ætlum við að laga? Af hverju erum við að fara í breytingar með alls konar tilheyrandi veseni og áhættu sem við í stjórnarandstöðunni höfum bent á? Af hverju erum við að þessu? Það hefur verið nefnt að mikilvægt sé að allir tali einum rómi og það sé hætta á tvíverknaði milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytis af því að hluti af tvíhliða þróunarsamvinnunni fari í gegnum utanríkisráðuneytið og hluti í gegnum Þróunarsamvinnustofnun.

Í fyrsta lagi var talsvert spurt eftir þessum tvíverknaði, öllum þessum ruglingi og hvað hefði nákvæmlega misfarist í samskiptum utanríkisráðuneytis og Þróunarsamvinnustofnunar sem varð til þess að það þurfti að fara beinlínis í miklar strúktúrbreytingar til þess að koma í veg fyrir þennan rugling allan saman. Hæstv. ráðherra nefndi rugling hér þegar hann flutti málið í fyrra sinn og sagði svo að það yrði farið yfir það í nefndinni. Við spurðum svo sannarlega spurninga. Hvaða ruglingur? Það vill enginn nefna nein dæmi um rugling. Sagt er: Það kann að fást hagræðing með stoðþjónustu og hugsanlega eru einhverjir tveir að gera eitthvað svipað. Þau rök að við tölum beinlínis ólíkri röddu á alþjóðavettvangi hafa ekkert verið rökstudd með fullnægjandi hætti í þessari umræðu. Ég varð ekki vör við það, hvorki í máli hv. formanns utanríkismálanefndar né hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem sitja í nefndinni núna og hafa farið yfir málið, að það hefði verið eitthvað betur skilgreint. Þannig að séu það rök þá finnst mér þau rök raunar eiga við um hvaða stofnanir sem er þar sem verksvið þeirra skarast að einhverju leyti. Ég tel það ekki fullnægjandi rök fyrir málinu sem ég kýs að kalla hálfgert brambolt.

Ég vil líka benda á að ekki hafa heldur fengist fullnægjandi svör við þeim ágætu rökum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði að umtalsefni hér áðan, sem voru þau að ef við teldum að það væri einhver hætta á ruglingi og tvíverknaði hjá þeim aðilum sem fara með tvíhliða þróunarsamvinnu af hverju væri ekki frekar farin sú leiðin að færa þróunarsamvinnuna alfarið yfir til fagstofnunarinnar og hafa þá nokkuð hreinar línur hvert hlutverk ráðuneytisins væri annars vegar og stofnunarinnar hins vegar. Þetta er hin fræga leið sem kennd hefur verið við Davíð Oddsson, svo merkilegt sem það nú er. Hún segir manni sitthvað um það valdabrölt sem er greinilega í gangi. Þetta er ekki valdabrölt á Alþingi heldur er þetta valdabrölt inni í kerfinu. Það hefur komið fram í ágætum úttektum sem gerðar hafa verið um þetta mál. Davíð Oddsson lagði það til, án þess að ég ætli beinlínis að gera hann að leiðtoga lífs míns, ég ætti nú ekki annað eftir, að þessi tvíhliða þróunarsamvinna yrði öll færð inn í Þróunarsamvinnustofnun. Hann skrifað undir reglugerð þess efnis en henni var aldrei framfylgt. Ráðherrann skrifaði undir reglugerð og henni var aldrei framfylgt. Hvað segir þetta okkur um þau átök sem leynast á bak við tjöldin? Ég held að það sé nú full ástæða fyrir hv. alþingismenn að velta því fyrir sér af hverju mönnum í ráðuneyti utanríkismála er svona mikið í mun að ná þessari breytingu í gegn án þess að betri rök en þessi hafi verið færð fram.

Ég kýs að hlusta eftir því sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, sagði í ræðu sinni, að þetta væru tillögur sem hefðu mjög oft komið á borð ýmissa ráðherra og við ættum að velta því fyrir okkur hver væri drifkrafturinn á bak við þær. Snýst þetta ekki um að ná völdum yfir einhverjum málaflokki?

Við þingmenn sitjum hér og reynum að fá einhver fagleg rök fyrir þessu. Það liggur líka fyrir og kemur ágætlega fram í nefndaráliti minni hluta hv. utanríkismálanefndar, þar sem vitnað er til greinargerðar frá DAC, að vinnubrögðum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands er hrósað og þar er tekið fram að stofnanarammi Íslands í málaflokknum búi yfir þeirri getu sem þarf til að ná markmiðum Íslands í þróunarsamvinnu og þrátt fyrir að vera lítið ríki komi Ísland vel út í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að þróunarsamvinnu. Vissulega er líka sagt að það þurfi að taka ákvörðun um hvaða fyrirkomulag henti best. Það er ekki lögð til ein leið. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna í meiri hluta og minni hluta að ekki sé lögð til nein ein leið. Það liggur líka fyrir að hæstv. ráðherra var ákveðinn í því að þetta væri leiðin sem hann vildi fara. Það var markmiðið í raun og veru þegar lagt var af stað í þessa vegferð í ráðuneytinu, að ná þessari tilteknu niðurstöðu án þess að víðtæk umræða færi fram um þetta fyrirkomulag, án þess að þingið væri kallað til samráðs eða hv. utanríkismálanefnd fyrir fram. Það liggur beinast við að ætla að tekin hafi verið ákvörðun fyrir fram um hvaða niðurstaða væri ráðuneytinu þóknanleg og lagt af stað í þá vegferð.

Mér finnst það dapurlegt eftir því sem ég hef kynnt mér söguna, og vafalaust eru einhverjir hér sem kunna hana betur en ég, í ljósi þess að bæði ráðherrar og þingmenn hafa lagt mjög mikið á sig til að ná sátt um þennan málaflokk á fyrri árum. Hv. formaður utanríkismálanefndar sagði að þetta væri eitt af þeim málum sem væri mjög erfitt að ná sátt um. Vissulega hefði verið einfaldara ef lagt hefði verið af stað í byrjun í samráði við aðra flokka, að málið hefði verið tekið með opnari hætti frá byrjun, þá hefði verið auðveldara að ná einhverri sátt um það hvaða fyrirkomulag við teldum henta best, en það var ekki gert.

Við sitjum hér uppi með mál sem er bullandi ágreiningur um. Alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við faglega undirbyggingu málsins. Ég er bara búin að nefna nokkur rök, þ.e. úttekt DAC á að starf Þróunarsamvinnustofnunar sé með þeim hætti sem ég hef hér lýst, skort á dæmum um tvíverknað og rugling, varnaðarorð um að það fari ekki vel að blanda endilega saman framkvæmd þróunarsamvinnu við aðra málaflokka utanríkismála á borð við utanríkisviðskipti, að það dragi úr gagnsæi, að það dragi úr því gagnsæi sem er nauðsynlegt til að sátt ríki um þennan málaflokk. Af hverju þykir mér það sérstaklega mikilvægt fyrir þennan málaflokk? Ég held að það hafi líka komið fram í andsvari mínu áðan og mig langar að útskýra það betur, að hér erum við að setja mikla fjármuni sem íslenskur almenningur á mjög lítil færi á að sjá hvernig er varið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að stjórnsýslan í kringum það hvernig þessum fjármunum verður varið sé til fyrirmyndar og upplýsingum um það sé miðlað eins og Þróunarsamvinnustofnun gerir til dæmis með verulega mikilli upplýsingamiðlun í gegnum sitt vefrit, Heimsljós, í gegnum virka upplýsingamiðlun til fjölmiðla og líka með árangursmatsmælingum, sem ég hef a.m.k. kynnt mér og ég veit að hv. þingmenn sem sitja í utanríkismálanefnd hafa kynnt sér, sem sýna okkur að þar er vandað til verka. Það að taka starfsemina úr farvegi sínum með óljósum fullyrðingum um tvíverknað, rugling og aukna samlegð einhverra tiltekinna stoðþjónustustarfa finnst mér ansi mikið áhættuspil með þennan viðkvæma málaflokk sem er líka í ákveðnu uppnámi eftir að hér var gengið þvert á samþykkt Alþingis með öllum atkvæðum nema einu um áætlun fjárframlaga til þróunarsamvinnu en þau voru skorin niður hér með róttækum hætti sem kom vægast sagt á óvart í ljósi þess, eins og ég sagði hér, að áætlunin var samþykkt með öllum atkvæðum nema einu á sínum tíma.

Hæstv. ráðherra kynnti nýja áætlun hér í vor, talsvert dapurlegri og metnaðarlausari en fyrri áætlun. Síðan er hæstv. ráðherra rekinn til baka með hana af hæstv. fjármálaráðherra sem leggur fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir enn dapurlegri og metnaðarlausari markmiðum. Á meðan erum við að horfa á nágrannaþjóðir okkar sem eru við það að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eða hafa náð þeim, jafnvel á krepputímum. Það eru ríkisstjórnir á öllu litrófi stjórnmálanna. Ég get nefnt Bretland sem dæmi, sem var með hægri stjórn sem sagði: Við ætlum samt að forgangsraða í þróunarsamvinnu og við ætlum að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna af því það skiptir máli að þjóðir gerir það jafnvel þó að það sé kreppa. En við fórum hina leiðina, þ.e. núverandi ríkisstjórn kaus að fara hina leiðina. Auðvitað hleypir það þessum málum í enn meira uppnám að hér sé líka verið að rugga stofnanarammanum án nokkurra skýrra raka.

Að lokum vil ég segja að það komu engin dæmi. Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar. Við höfum í raun og veru engin fordæmi fyrir því að stofnun sé í raun og veru lögð niður í heilu lagi og sett inn í ráðuneyti. Við höfum talsvert mörg fordæmi fyrir því að verkefni séu tekin út úr ráðuneytum og þau sett í sérstakar fagstofnanir með þeim rökum að þar sé um framkvæmdamál að ræða sem fari betur á að hafa í sérstökum fagstofnunum. Þingmenn meiri hlutans samþykktu eitt slíkt fordæmi hér í vor; þeir samþykktu nýja Menntamálastofnun þar sem var meðal annars verið að færa verkefni úr menntamálaráðuneytinu yfir í þá stofnun. Hver voru rök hv. þingmanna meiri hlutans? Það væri mjög mikilvægt að hafa framkvæmdina sér og eftirlitið sér. Þegar ég vakti máls á þessu í 1. umr. komu hv. þingmenn og sögðu: Þetta er aðeins öðruvísi núna. Af hverju er þetta öðruvísi núna? Það er ekkert öðruvísi núna.

Þarna virðist mér sem pólitískur metnaður eða persónulegt stolt ráði för. Það er auðvitað ekki gott leiðarljós. Mér þykir leiðinlegt að segja þetta, en það er ekki oft sem svona mál koma hér upp. Hér koma oft upp mál þar sem við erum algjörlega ósammála um hugmyndafræði og grundvallaratriði en við getum kannski ekki gert miklar athugasemdir við faglegan undirbúning mála. Í þessu tilfelli finnst mér vera nokkuð ljóst að faglegur undirbúningur hefur ekki verið nægur. Mér finnst mótrökunum ekki hafa verið svarað; ég hef þó reynt að hlusta eftir því. Auðvitað snýst þetta mál um form og inntakið á bak við það er síðan frammistaða núverandi meiri hluta í framlögum til þróunarsamvinnu.

Ég get ekki séð annað og ætla að hafa það mín lokaorð hér en að með þessari illa rökstuddu breytingu á fyrirkomulaginu og þeim markvissa ásetningi að reyna að koma í veg fyrir að framlög Íslendinga verði á pari við aðrar Norðurlandaþjóðir og Evrópuþjóðir og nálgist þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna þegar kemur að þróunarsamvinnu á tímum þar sem þörfin hefur líklega aldrei verið meiri, þegar horft er til flóttamannavandans, þegar horft er til loftslagsvandans og annars, þá finnst mér þessi málaflokkur vera kominn í algjört uppnám.