145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mönnum hefur orðið tíðrætt um það að einungis sé um að ræða einhvers konar formbreytingu, sakleysislega formbreytingu. Þeir örfáu stjórnarþingmenn sem hafa talað í málinu — það vekur alltaf jafn mikla athygli hve þeir hafa lítinn áhuga á þessu máli en virðast samt ætla að trukka því hér í gegn eins og þeim er sagt að gera.

Mér finnst þetta töluvert meira en einhver formbreyting, þetta er fag, þetta er sérsvið. Þetta er eins og vegagerð eða skattrannsókn. Þetta er í alvöru fag og sérsvið. Það er mér algerlega óskiljanlegt hvers vegna menn eru að keyra þetta svona hér í gegn. Mér finnst menn ekki bera mjög mikla virðingu fyrir þessu sem fagi og ekki viðurkenna að beita þurfi ákveðnum viðurkenndum aðferðum þegar unnið er að þessum málaflokkum. Það er það sem veldur mér áhyggjum. Þess vegna hef ég ekki viljað kalla þetta formbreytingu, heldur beinlínis eðlisbreytingu á þessari starfsemi.