145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega formbreyting sem mun leiða af sér eðlisbreytingu. Það sem maður veltir fyrir sér og ætti kannski að spyrja formann utanríkismálanefndar að er: Hvað ef mönnum dytti í hug að taka Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið? Þetta er svipuð aðgerð. Ég held að menn þurfi að vera svolítið samkvæmir sjálfum sér í því sem þeir gera, vegna þess að í þessu tilfelli er eingöngu verið að gera þetta af því að búið er að þrengja svo mikið að utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið hefur fengið á sig viðbótaraðhaldskröfur í langan tíma, ekki síst frá þessari ríkisstjórn, sem veldur því að það er orðið aðþrengt og verkefnin eru orðin svo mörg og stór að þetta virðist vera hagfelld niðurstaða fyrir ráðuneytið. En þetta er mjög sorgleg niðurstaða fyrir aðkomu okkar að þróunarmálum og verkefni okkar á því sviði og þetta er það eina sem ég sé sem mögulega ástæðu fyrir þessu. Það er ekki lagt til að taka neina fagstofnun inn í neitt annað ráðuneyti. Þetta fer gegn stóru myndinni og þeirri þróun sem hefur átt sér stað í stjórnsýslunni og eina ástæðan sem ég get séð fyrir því að menn leggja hér þróunarmálin undir eru peningar.