145. löggjafarþing — 24. fundur,  21. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var góð spurning hjá hv. þingmanni. Ég nefndi það hérna áðan að ríkt hefur mikil samstaða um málaflokkinn og þingsályktunina sem var samþykkt í júní 2011, að ég held, var eitt skýrasta og kannski öflugasta dæmið um sáttina um þetta mál. Það var ekki eins og verið væri að keyra það í gegnum þing í krafti meiri hluta í bullandi ágreiningi við stjórnarandstöðu að hækka framlögin til málaflokksins svona bratt og ná markmiðinu um 0,7% af vergri landsframleiðslu. Það var mikil ánægja almennt með það í þinginu. Menn fögnuðu því mikið. Sjálfum þótti mér það vera með eftirminnilegri og ánægjulegri atkvæðagreiðslum sem ég hafði tekið þátt í á öllum mínum árum í þinginu, að utan um þennan málaflokk væri tekið með sérstökum hætti og einmitt forgangsraðað fram yfir ýmislegt annað án þess að það bitnaði á grunnþjónustu eða framlögum til velferðarmála á Íslandi.

Það er lengi hægt að forgangsraða til að finna fé í jafn mikilvæg mál og þróunarsamvinnu, gífurlega mikilvæg mál. Það er mikill sómi að því þegar stjórnvöld reyna að ná settum markmiðum og fylgja þeim eftir með þverpólitískri sátt og þingsályktun eins og hv. þingmaður benti á þar sem Alþingi sjálft stóð að því máli mjög afdráttarlaust og setti stjórnvöldum það fyrir að ná þessu markmiði, auðvitað í samvinnu við þau sem þá skipuðu ríkisstjórn.

Ég tel að þetta frumvarp gangi þvert gegn sáttinni og þvert gegn markmiðum um að efla málaflokkinn.