145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það væri hægt að hafa einhvern skilning á þessari afstöðu hæstv. forsætisráðherra ef hann væri samkvæmur sjálfum sér í þessu efni, en eins og hér hefur verið rakið af hv. þm. Helga Hjörvar þá hefur hann sjálfur margsinnis samþykkt sérstakar umræður um mál sem eru sannanlega á málefnasviði annarra ráðherra.

Síðan er það nú þannig að hann vill ekki heldur eiga orðastað við þingið um þau mál sem eru sannanlega á hans ábyrgðarsviði. Hann neitar umræðu hér við okkur hvert haust um ráðstöfun fjárveitinga til húsafriðunar og minjaverndarmála sem undir hann heyra samkvæmt hans eigin ákvörðun. Þar af leiðandi er það þannig að hæstv. ráðherra ber hvorki ábyrgð á því sem hann ber ekki ábyrgð á né því sem hann ber ábyrgð á. Það eina sem hann virðist treysta sér til að tala um við þingið sem heyrir undir forsætisráðuneytið er þjóðfáninn, skjaldarmerkið og þjóðsöngurinn. Það sýnir nokkurn veginn hvernig komið er fyrir stöðu hæstv. forsætisráðherra. Og kannski ekki að undra að samstarfsflokkurinn sé þegar farinn að máta sinn formann í stól forsætisráðherra.