145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er eitthvert aumasta yfirklór sem ég hef heyrt hjá einum ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, að hann geti ekki komið til þingsins og átt orðastað við þingmenn um stórmál, pólitískt mál, eitt sitt helsta kosningaloforð, af því að hlutum hafi skipast þannig innan ríkisstjórnarinnar að viðfangsefnið sé núna að einhverju leyti í höndum hæstv. fjármálaráðherra. Alþingi er ekki bundið af verkaskiptingu Stjórnarráðsins og Alþingi er ekki hólfað í nefndir og box sem ekki er hægt að stíga yfir. Alþingi er einn helsti pólitíski umræðuvettvangur landsins. Þetta er pólitískt mál. Það er verið að óska eftir því að eiga orðastað við forsætisráðherra sem þann sem lofaði afnámi verðtryggingar, sem stjórnmálamann. Hún heldur ekki á nokkurn hátt þessi auma afsökun hæstv. forsætisráðherra. Ef hann er eitthvað viðkvæmur gagnvart hæstv. fjármálaráðherra þá gengur hann yfir til hans og segir: „Heyrðu, Bjarni, hefur þú nokkuð á móti því að ég taki hérna umræðu um afnám verðtryggingar, því að það er óskað eftir því af stjórnarandstöðunni?“ (Forseti hringir.) Ég spái því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segi: „Nei, gerðu það bara“. Þar með er málið leyst.