145. löggjafarþing — 25. fundur,  22. okt. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið hegðun hæstvirtra ráðherra, sér í lagi ráðherra Framsóknarflokksins, inn í umræðuna þegar við ræðum vald. Það er algjörlega óboðlegt hvernig hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins hafa farið með vald og þá ekki síst hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur farið með vald sitt þegar kemur að Evrópusambandsmálinu.

Það er mér hulin ráðgáta hvernig mönnum tókst að fyrirgefa honum það svo fljótt. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna Alþingi eða almenningur lætur bjóða sér það sem hæstv. utanríkisráðherra gerði þá. Og miðað við þannig meðhöndlun á valdi þá get ég ekki sagt að ég treysti þeim ráðherra fyrir valdi. Mér þykir hans meðferð á því sjálfkrafa tortryggileg í kjölfarið. Svo gæti ég haldið lærða ræðu hér um hegðun hæstv. forsætisráðherra í sömu efnum, en það er svo sem óþarfi, við höfum kynnst nógu af því upp á síðkastið.