145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

málefni Ríkisútvarpsins.

[15:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurninguna til hæstv. forsætisráðherra um tvö lykilatriði, að útvarpsgjaldið verði ekki lækkað, renni óskipt til Ríkisútvarpsins, og að lífeyrisskuldbindingunum verði létt af stofnuninni.

Vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur sýnt sig að vera bæði hugmyndaríkur og kraftmikill þegar kemur að friðun menningarverðmæta vil ég minna hann á að Ríkisútvarpið var stofnað sem vagga íslenskrar þjóðmenningar sem undir hann heyrir nú. Ríkisútvarpið hefur verið með okkur nokkurn veginn jafn lengi og hafnargarðurinn sem friðaður var hér fyrir nokkrum dögum síðan, en það hefur verið okkur sýnilegt alla tíð og skilið mikil verðmæti eftir hjá þjóðinni alla tíð og gegnt miklu hlutverki fyrir fólk úti um allt land alla tíð.

Ég vil þess vegna hvetja hæstv. forsætisráðherra til að hjálpa okkur líka við að friða Ríkisútvarpið fyrir atlögu öfgamanna úr hans eigin ranni (Forseti hringir.) og stjórnarliðsins og standa vörð um Ríkisútvarpið.