145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

móttaka flóttamanna.

[15:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fara fram á það við hæstv. forsætisráðherra að ríkisstjórnin endurskoði þessar áætlanir sínar. Flóttamannafjöldinn er stöðugt að aukast. Þetta er þróun sem mun verða áfram næstu missirin og við verðum einfaldlega að gera betur. Eins og ég sagði fyrr í máli mínu þá vorum við hér yfir 20 þingmenn sammála um töluna 500 og ég veit að í stjórnarliðinu er stuðningur við myndarlegri framlög okkar til móttöku flóttamanna.

Ég fagna því, hæstv. forseti, að lagðar séu 250 milljónir í stuðning við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök. Það er mikilvægt, en við þurfum að nota meiri fjármuni í að taka við kvótaflóttafólki svo að það þurfi ekki að leggja í ferðina yfir hafið. Síðan erum við hér með straum hælisleitenda. Þeim hefur farið fjölgandi á síðustu árum (Forseti hringir.) og það er ekki hægt að nýta hluta af þessum 2 milljörðum í þá. Þetta er þróun (Forseti hringir.) sem var fyrir séð. Í upphafi þessa árs var ekki gert ráð fyrir nægum (Forseti hringir.) fjármunum þannig að þeir eiga ekki að koma að þessu.

Ég óska eftir endurskoðun á þessum áætlunum.