145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi afdráttarskattinn og þá undanþágu sem hér er lögð til er rétt að árétta að nú þegar er til staðar í lögum undanþága frá afdráttarskatti. Tiltekin íslensk fyrirtæki hafa þennan afslátt. Sú undanþága kom til á sínum tíma vegna þess að þau skuldabréf sem gefin eru út af t.d. íslenskum orkufyrirtækjum, íslenskum bönkum og fjármálastofnunum eru tekin til viðskipta á markaðstorgum erlendis. Þessi markaðstorg taka ekki til viðskipta skuldabréfa sem bera vexti sem á hvílir skattur inn í framtíðina. Með vöxtum í þessu tilliti er ekki bara verið að tala um beina vexti heldur er líka verið að tala um vexti sem myndast í formi affalla þegar þessi skuldabréf ganga kaupum og sölum löngu síðar, eftir mörg ár mögulega. Þetta er tæknilegt framkvæmdaratriði því að markaðstorgin treysta sér ekki til að höndla með slíka skattskyldu langt fram í tímann.

Í tilfelli slitabúanna liggur það fyrir að þau ætla að gefa út skuldabréf til lúkningar kröfum gagnvart kröfuhöfum. Þessi skuldabréf munu ekki endilega bera vexti, ekki beina vexti, í fæstum tilvikum, heldur munu þessir vextir mögulega myndast í viðskiptum seinna meir. Til að þessi bréf geti verið tekin og verði raunveruleg verðmæti fyrir kröfuhafana þurfa þau að vera tæk til viðskipta á þessum markaðstorgum og það verða þau ekki nema það sé skýrt gefið til kynna að á þeim hvíli ekki skattur fram í tímann. Þetta er því tæknilegt atriði.

Hins vegar er vert að hafa í huga (Forseti hringir.) að þeir sem bera skattskyldu á Íslandi munu eftir sem áður (Forseti hringir.) bera hana en flestir þessara kröfuhafa bera (Forseti hringir.) hvort eð er ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.