145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að halda því til haga að hér hefur ekki verið samið við kröfuhafa um nokkurn skapaðan hlut, stjórnvöld hafa ekki samið við kröfuhafa að mér vitandi. Það hefur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar ekki heldur gert, svo að því sé haldið til haga. Hins vegar er rétt að hafa í huga að vilji löggjafinn bjóða upp á raunhæfa leið fyrir þessi slitabú til að ljúka sínum málum með nauðasamningi þarf sú leið auðvitað að vera raunhæf. Það var samþykkt hér síðastliðið sumar að bjóða upp á þessa tvo kosti, stöðugleikaskattinn eða leið nauðasamninga. Ég hef ekki heyrt því fleygt í þessum þingsal að nokkur þingmaður vilji eða hefði viljað eða vilji enn þá og telji það betri kost að slitabúin borgi stöðugleikaskattinn, láti á hann reyna eftir atvikum fyrir dómstólum og verði í því næstu árin. Ég hef ekki heyrt því haldið fram í þessum þingsal. Það væri áhugavert að fá það fram ef einhver þingmaður telur að það sé betri leið en sú leið sem nú stefnir í að verði farin.

Rétt er að halda því fram og ég ítreka það hvað afdráttarskattinn varðar að ekki er einu sinni gert ráð fyrir nokkrum tekjum af skatti sem þeim í fjárlagafrumvarpi eða fjárlagagerð ríkisins. Því er ekki um einhvers konar tekjutap að ræða ef menn vilja kalla það það, það er ekki um slíkt að ræða í þessu. Það er eingöngu verið að gera það að raunhæfum kosti að þessum málum verði lokið með nauðasamningum kröfuhafanna sín á milli, þannig að þeir sjái að það sé einhver kostur umfram það að borga stöðugleikaskattinn að fara leið nauðasamninga. Um það snýst málið, það er ekki flóknara en svo. Ekki er gert ráð fyrir tekjum af afdráttarskatti af skuldabréfum sem þessum í fjárlagagerð ríkisins og hefur aldrei verið gert.