145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:56]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir álit hennar og vangaveltur um málið. Í stóru myndinni og í framsögu hv. þingmanns, að ég held, kom fram að ekki væri ljóst hvenær almenningur slyppi út úr höftum, hérna væri vissulega verið að greiða götu þess að slitabúin kæmust út úr höftunum — og þau skilja eftir miklar eignir til þess að gera það mögulegt — en þegar almenningur mundi komast úr höftum þyrfti hann ekki að sæta neinum afslætti. Ég held að hafi komið fram og vil vita hvort hv. þingmaður muni ekki eftir því að á fundi nefndarinnar með Seðlabankanum hafi seðlabankastjóri líka verið spurður þessarar spurningar: Hvenær kemur að almenningi? Það er spurning hvort hún muni svarið. Mig minnir að það hafi verið á árinu 2016, þá væri hægt að hefja afnám hafta gagnvart fyrirtækjum og almenningi, gangi þetta eftir. Ég vildi spyrja hvort hana ræki minni til þess að það hafi verið með þessum hætti.