145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það getur vel verið að þetta hafi ekki áhrif á fjárlög næsta árs eða eitthvað svoleiðis, en það sem hefur komið fram í umræðunni í dag er gagnrýni á að verið sé að fresta vandanum. Það kom fram í áliti Indefence-hópsins en fulltrúar þess hóps hafa meðal annars heimsótt okkur þingmenn Samfylkingarinnar og lýst miklum efasemdum um að verið sé að fresta vandanum fram á jafnvel næsta kjörtímabil, um fjögur til sex ár, með því að velja þessa leið, eins og hér hefur verið töluvert gagnrýnt, í staðinn fyrir að fara skattaleiðina sem talað var um og hér sé verið að gefa mikinn afslátt.

Hér hefur líka komið fram, virðulegi forseti, að það sé ekki verið að aflétta höftum á lífeyrissjóði, íslensk fyrirtæki eða íslenskan almenning svo eitthvert bragð sé að. Það er þess vegna sem ég spurði hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort það hefði ekki verið þess virði fyrir nefndina að hafa kafla um þau efnahagslegu atriði sem ég gerði að umtalsefni.