145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar þegar kemur að þessu málefni að við eigum að reyna að taka sameiginlega ábyrgð á þessu öllu saman. Það var mjög erfitt að kynna sér málin á sínum tíma þegar kom að stöðugleikaskattinum, en ég taldi það þó takast eða alla vega nógu mikið til að ég sé reiðubúinn til að taka ábyrgð á því.

Nú ætla ég ekki að standa hér og útskýra nákvæmlega eða réttlæta það fyrir öðrum þingmönnum hvernig ég greiði atkvæði. Ég greiði bara atkvæði eins og mér sýnist, það er ekki flóknara en það í sjálfu sér, en mér sýnist ég gera það út frá alls konar forsendum sem ég skal glaður útskýra. En þegar kemur að því hvort ég taki upplýsta ákvörðun eða ekki, þá reyni ég einfaldlega að taka sem upplýstasta ákvörðun og í tilfelli sem þessu finnst mér mikilvægt að við séum reiðubúin til að bera ábyrgð á málinu, en ég átta mig líka á því að það er engin leið til til að gera þetta áhættulaust. Þess vegna segi ég og sagði í ræðu minni: Ég hallast að því að greiða atkvæði með þessu og ég vona að mér takist að gera það með góðri samvisku. Ég er bara ekki viss. Ég áskil mér fullan rétt til þess að vera ekki viss um bara allt í lífinu, þar á meðal þingmál, öll þingmál, burt séð frá því hvort þau eru seint fram komin, unnin hratt eða hvaðeina.

Ég er sammála hv. þingmanni, ef ég skildi hann rétt, að þetta snýst ekki um spurninguna hvort við séum að liðka fyrir kröfuhöfum. Markmiðið er að losa um fjármagnshöftin. Það er markmiðið. Það er virðingarvert og nauðsynlegt markmið sem ég vil taka þátt í að bera ábyrgð á. En þegar skammur tími er finnst mér líka rétt að við nefnum það, mér finnst það algerlega málefnalegt og nauðsynlegt.

Ég náði ekki að nefna í fyrra svari mínu hvað varðar nýtingu fjármagnsins. Það er rétt og skarplega athugað hjá hv. þingmanni að skilyrði eru fyrir nýtingu þessa fjár. Það hindrar hins vegar ekki endilega stjórnmálaflokkana í því að lofa ókeypis peningum handa helling af fólki til þess að vinna kosningar, ég hef áhyggjur af því líka. Ég sé reyndar drög að slíkum loforðum í fjölmiðlum þessa dagana og óttast þau mjög.