145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mörgum hefur þótt erfitt að finna gagnrýni á nýútkomna skýrslu um Ríkisútvarpið, skýrslu sem skilaði fullri sátt þriggja háskólamenntaðra einstaklinga sem eru með mikla reynslu, (Gripið fram í.)skýrslan var í fullri sátt. Gagnrýnin sem hefur komið á skýrsluna hefur kannski einna helst falist í því að einn nefndarmanna sé sellóleikari. Hvað er það sem við eigum að vera að ræða hér? Er það ekki hvert mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins er, hvernig því er náð og hvernig best sé að ná því? Er aðalatriðið samt ekki það að við erum að tala um almannafé og hvernig ætlum við að verja því almannafé? Hvorum megin við Bústaðaveginn ætlum við að verja fénu? Í áframhaldandi uppbyggingu á Ríkisútvarpinu, bara til þess að vernda þá stofnun, eða hinum megin við Bústaðaveginn við uppbyggingu heilbrigðiskerfisins? Ég held að það sé umræðan sem við eigum að taka, hvernig við ætlum að nota almannafé.


Efnisorð er vísa í ræðuna