145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[13:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur og það vekur furðu verkleysi ríkisstjórnarinnar sem birtist í skorti á þingmálum. Það er líka með ólíkindum, og ég hafði svo sem í hyggju að gera um það sérstaka athugasemd, að í frestbeiðnum vegna fyrirspurna af hálfu menntamálaráðuneytisins er í annað sinn óskað eftir fresti til að svara fyrirspurn minni um forsendur þeirrar ákvörðunar menntamálaráðherra sem löngu er búið að taka að hætta að borga fyrir fólk yfir 25 ára aldri í framhaldsskólunum. Ég er að biðja um rökstuðning fyrir ákvörðun sem löngu er búið að taka. Ég er að biðja um þær efnislegu greiningar sem liggja fyrir og hljóta að hafa legið fyrir ef ákvörðunin var tekin á upplýstum forsendum. Það er ótrúlegt að í annað sinn skuli vera óskað eftir fresti til að svara jafn augljósri fyrirspurn.