145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

kynferðisbrot gagnvart fötluðum.

[14:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni enn á ný fyrir hvatninguna og fyrirspurnina. Við þurfum í þessari vinnu að fara yfir hvað það er sem við getum gert innan núgildandi laga, hvort það sé eitthvað sem þurfi að skerpa á varðandi lagaumhverfið. Við þurfum að fara yfir það sem hv. þingmaður nefndi, hvernig áherslur okkar samrýmast sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, um rétt til lífs án aðgreiningar, rétt til sjálfstæðs lífs sem er undirliggjandi hugsun þar. Í grunninn þurfum við alltaf að íhuga þetta og horfast í augu við það að ofbeldi er til staðar í samfélaginu. Það eru, eins og ég nefndi í fyrra svari mínu, ákveðnir hópar, fatlað fólk, sem eru varnarlausari en aðrir, og við þurfum að íhuga hvernig við getum unnið gegn ofbeldi gagnvart þeim og öðrum berskjölduðum hópum með sem bestum hætti.