145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

NPA-þjónusta við fatlað fólk.

[14:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og kannski lengi hefur verið fyrir séð er nú allt í uppnámi varðandi yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga og sérstaklega gengur illa með NPA-samstarfsverkefnið. Samband íslenskra sveitarfélaga mætir ekki á fundi um verkefnastjórn um NPA vegna deilna um kostnaðarskiptingu og bíður enn svars við erindi sínu til ráðherra frá því í ágúst sl.

Lögum samkvæmt á að lögfesta NPA sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk. Alþingi er búið að taka ákvörðun um það og hefur falið framkvæmdarvaldinu að vinna að því.

Þær deilur sem nú eru milli ríkis og sveitarfélaga snúast að sjálfsögðu um peninga. Á meðan þær deilur standa þurfa einstaklingar með NPA-samninga að minnka við sig þjónustu og jafnvel eru dæmi um fólk sem hefur þurft að minnka við sig vinnu þar sem NPA-þjónustan þeirra er forsenda atvinnuþátttöku. Þar að auki er mikið óöryggi hjá þeim sem eru með NPA-samninga því að þjónustan er forsenda þess að þau hafi frelsi til að stjórna eigin lífi. Enginn vill missa slíkt frelsi.

Hvað hyggst hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra gera til að leysa þessa kostnaðardeilu við sveitarfélögin? Má fólk með NPA-samninga treysta því að það haldi frelsi sínu til að stjórna eigin lífi áframhaldandi?