145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða og ýmislegt áhugavert borið á góma, sem tengist fjármálum ríkisins og stefnumótun á því sviði þó að það sé ekki allt kannski efni þessa fjáraukalagafrumvarps.

Hv. þm. Frosti Sigurjónsson flutti hér athyglisverða ræðu. Hann er því miður ekki í salnum en kannski skammt undan. Hann benti meðal annars á það, sem er rétt, að arðgreiðslur frá fjármálastofnunum hafa reynst stórlega vanmetnar í tveimur síðustu fjárlögum og stefna í að verða það þriðja árið í röð miðað við fjárlagafrumvarpið, t.d. ef horft er til afkomu Landsbankans. Það er umhugsunarefni að menn skuli ekki reyna að færa tekjur ársins sem í hönd fer nær því sem liggur eiginlega fyrir í góðri afkomu fyrirtækja í eigu ríkisins, eins og Landsbankans.

Annað er athyglisvert við arðinn frá fjármálastofnunum sem hefur verið umtalsverður, yfir 20 milljarðar núna tvö ár í röð frá Landsbankanum og nokkuð frá Seðlabankanum og víðar, og það er að með honum er endanlega sannað nú árið 2015 að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar reyndist fullfjármögnuð og vel það. Þeir stjórnarliðar sem töluðu hana niður og skáru hana niður við trog á síðari hluta árs 2013 og höfundar greinargerðar fjárlagafrumvarpsins það ár ættu nú að hugsa sinn gang. Það hafa ekki reynst neinar innstæður fyrir þeim fullyrðingum að tekjur bærust ekki í samræmi við það sem fjárfestingaráætlun gerði ráð fyrir. Ergo: Það hefði verið hægt að halda fullum dampi í þeim fjárfestingum í innviðum sem lagt var upp með á árinu 2012 og 2013 en núverandi ríkisstjórn skar því miður niður. Þetta er staðreynd þó að ríkisstjórnin hafi lækkað verulega tekjur ríkisins af veiðigjöldum. Þar hefur orðið umtalsvert tekjufall eins kom fram í gögnum frá Fiskistofu í dag eða gær, þar sem ágæt samantekt er á endanlega greiddum veiðigjöldum fiskveiðiáranna 2012/2013 þegar þau voru 12,8 milljarðar, 2013/2014 þegar tekjurnar féllu niður í 9,2 milljarða og á síðasta fiskveiðiári, 2014/2015, sem lauk 1. september síðastliðinn, eru tekjurnar komnar niður í 7,7 milljarða. Þetta eru 8,7 milljarðar sem þarna eru farnir út miðað við óbreytt veiðigjöld ársins 2012/2013.

Hefur afkoma sjávarútvegsins versnað? Er ástæða til að ætla að nauðsynlegt hafi verið að fara í svo mikla lækkun veiðigjalda til að hlífa til dæmis stærri fyrirtækjum í sjávarútvegi? Nei, ekki aldeilis. Hið mikla góðæri hefur haldið áfram í greininni með miklum fjárfestingum, uppbyggingu, stórauknu eigin fé og gríðarlegum arðgreiðslun undanfarin missiri til eigenda fyrirtækja.

Þó að núverandi ríkisstjórn hefði afsalað þessum tekjum hefði fjárfestingaráætlunin samt verið fullfjármögnuð vegna arðgreiðslna sem komu frá fjármálastofnunum. Þannig var um það búið að annars vegar mundu arðgreiðslur og/eða söluhagnaður hluta í eigu ríkisins í fjármálastofnunum bera uppi kostnað við fjárfestingaráætlunina og hins vegar auknar tekjur af veiðigjöldum í gegnum sérstakt veiðigjald.

Ég harma það til dæmis að þær auknu framkvæmdir í vegamálum sem hefðu fylgt óskertri fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar á þriggja ára tímabili skuli hafa orðið mun minni en lagt var upp með. Núna munu menn fara að nota þau rök gegn því að bæta í að það sé varhugavert vegna þenslu í hagkerfinu. Við þekkjum þennan vítahring. Er þá aldrei hægt að efla fjárfestingar í innviðum samfélagsins, í fjarskiptum, í vegum, flugvöllum, höfnum, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu o.s.frv.?

Veruleikinn er sá að einu umtalsverðu framkvæmdirnar sem eru í gangi núna og eru fjármagnaðar með venjulegum hætti samkvæmt vegáætlun eru stórframkvæmdirnar sem settar voru af stað á grundvelli fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar, eins og Norðfjarðargöng, framkvæmdir við hafnir og nokkra vegi.

Í öðru lagi um sölu Landsbankans, sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson kom einnig inn á, þá bað ég eiginlega um orðið til að koma upp og taka undir með honum þegar hann varaði við einhverju óðagoti í þeim efnum. Það er auðvitað athyglisvert að þrátt fyrir að söluáformin um Landsbankann hafi ekki gengið eftir á þessu ári, og áætlaðar tekjur upp á 35,5 milljarða vegna sölu á 15% hlut í Landsbankanum hafi verið teknar út úr fjáraukalagafrumvarpinu, skuli áfram vera gert ráð fyrir því að selja 30% í bankanum og þá í einu lagi á árinu 2016. Í ofanálag stefnir nú að líkindum í að ríkið fái Íslandsbanka í sínar hendur. Er mikil skynsemi í þessu? Úti á markaðnum eru aðilar að keppast um að safna liði til að kaupa Arion banka, gera sér væntanlega vonir um að fá hann fyrir lítið. Er þá hyggilegt að ríkið haldi til streitu áformum um sölu á Landsbankanum? Auk þess er sú athyglisverða umræða komin upp og við það virðist vera þó nokkur þverpólitískur stuðningur að horfa til þess að ríkið eigi slíkan banka en leggi aðrar áherslur með starfsemi hans, hvort sem við köllum það samfélagsbanka, þjóðarbanka eða eitthvað annað. Ég held að það sé ekki um annað að ræða en að fara að efna til almennilegrar stefnumótandi umræðu um það hér á þingi þó að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni finnist það eitthvað sem hann kallar upp á útlensku en ég mundi þá bara stinga upp á íslenskunni: Endurtekið efni. Það getur vel verið að það sé endurtekið efni að ræða um það hvort ríkið geti í gegnum eignarhald sitt á mikilvægum þjónustustofnunum, sem ég lít svo á að bankar eigi að vera, lagt tilteknar áherslur í þágu alls samfélagsins. Hvað með það? Auðvitað er það hægt. Það er ekki endilega spurningin að þær stofnanir séu verr reknar eða öðruvísi reknar en aðrar og það ragi eitthvað upp á samkeppnislög.

Segjum sem svo að á þjóðarbanka af tagi Landsbankans, sem hefur nú gleypt stærstan hluta þess sem eftir var af sparisjóðum og er þar af leiðandi eina fjármálastofnunin á stórum svæðum á landinu, (Gripið fram í.) verði lagðar samfélagslegar, byggðapólitískar skyldur til þess að veita sómasamlega þjónustu á þeim stöðum sem annars eiga alls ekki kost á bankaþjónustu. Hvers vegna skyldi banki í 100% eigu ríkisins eða því sem næst loka hraðbankanum í Hrísey og dæma menn þar til að hafa enga bankaþjónustu, ekki einu sinni hraðbanka? Segjum sem svo að eigendastefna ríkisins segði: Nei, takk, þið eruð í því hlutverki að þið eruð eina fjármálastofnunin á stórum landsvæðum og við ætlumst til þess sem eigendur að þið veitið fullnægjandi þjónustu. Það kostar kannski eitthvað en í gegnum það er samfélagsleg þjónusta, byggðapólitísk þjónusta og jafnræðisspurning landsmanna knúin. Þar fyrir utan, eins og þegar hefur verið nefnt, eru slík fyrirbæri vel þekkt, að menn leggi þær línur í sambandi við rekstur svona fyrirtækja eða stofnana sem gegna samfélagslegu hlutverki að menn horfi þar til almennra þarfa raunhagkerfisins, blandi sér ekki í áhættusamari hluta rekstrar, eins og fjárfestingarbankastarfsemi, og skilgreini sig í grunninn sem þjónustustofnanir, eins og sparisjóðirnir gerðu vissulega. Það er sorglegt hvernig það fór en það var ekki við rekstrarform þeirra að sakast.

Veruleikinn er sá að sparisjóðir voru reknir hér á landi um áratugaskeið. Þeir veittu góða þjónustu, nærþjónustu, studdu við atvinnulífið og samfélögin á sínum svæðum og lögðu árlega talsverðan rekstrarafgang í styrki til alls konar menningar- og félagsstarfs á svæðunum. Í sögu sparisjóðanna, þó að hún hafi verið köflótt og brotakennd og endað illa að stærstum hluta, eru líka dæmi um áratuga vel heppnað fyrirkomulag af þessu tagi þar sem markmiðið var ekki gróði til einhvers eiganda heldur samfélagslegt og ábati af starfseminni var látinn renna til samfélagsins sem í hlut átti.

Ég vil ekki endilega lýsa mig sammála hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, svo ég haldi nú áfram að byggja ræðu mína á viðbrögðum við ræðu hans, um að það væru klárlega mistök ef Ísland gerðist stofnaðili að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Ég hefði alveg eins spurt: Af hverju skyldi Ísland ekki fylgja fordæmi flestra annarra Evrópuríkja og vera með þar sem rísandi banki í Asíu er að taka sér mjög mikilvægt svæðisbundið hlutverk og mun án efa verða til góðs fyrir uppbyggingu og þróun þróunarríkjanna á því svæði, enda honum ætlað það hlutverk? Tregða Bandaríkjamanna og tilraunir til að spilla fyrir þessu eru nú ekki rök fyrir mér til þess að vera ekki þarna með. Allir vita auðvitað, sem hafa kynnt sér eitthvað alþjóðastjórnmálin hér á bak við, hvað veldur tregðu Bandaríkjamanna. Þeir tregðast við að viðurkenna rísandi hlutverk Asíu í efnahagsmálum heimsins og gráta yfir því að missa smátt og smátt það drottnunarvald sem þeir höfðu yfir fjölþjóðastofnunum, þar á meðal Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir sjá það núna færast til, sjá þyngdarpunktinn í hagkerfunum færast til. Á Ísland ekki alveg eins að vera með í því sem þróað ríki eins og önnur? Ég held það.

Varðandi efni frumvarpsins að öðru leyti þá er auðvitað hægt að gera eins og stjórnarliðar hafa gert, að gleðjast yfir því að afgangurinn verði meiri á fjárlögum þessa árs en í fyrra. Það er alltaf gott en við skulum þá rýna ofan í það hvernig hann er til kominn. Hann er því miður að uppistöðu til kominn vegna vanáætlunar á arðgreiðslu frá Landsbankanum, þ.e. 17,1 milljarði sem afkoman batnar um. Ef frá því eru dregnar 15 milljarða meiri tekjur í arð frá Landsbankanum þá stendur eftir 2,1 milljarður. Það er þá það sem grunnafkoma ríkisins batnar um. Það er athyglisverð setning sem hefur kannski farið fram hjá einhverjum á bls. 44 þar sem kemur fram að ef horft sé fram hjá þessum auknu arðgreiðslum þá versni frumjöfnuðurinn um liðlega 3 milljarða frá áætlun fjárlaga.

Ég hef horft dálítið á frumjöfnuðinn undanfarin ár. Það var ekki vinsælt hér á síðasta kjörtímabili þegar ég sem fjármálaráðherra talaði stundum um frumjöfnuðinn. Menn töldu jafnvel að ég hefði fundið upp þetta hugtak til að villa um fyrir þeim. En veruleikinn er sá að frumjöfnuðurinn er raunhæfasti mælikvarðinn á undirliggjandi rekstur ríkisins. Það er annaðhvort að nota frumjöfnuðinn eða taka til hliðar óreglulega liði og þá sjáum við hvernig afkoman er í grunninn. Það er auðvitað ekki gott að frumjöfnuðurinn hefur ekki batnað eins og hann hefði þurft að gera. Veruleikinn er sá að ríkisstjórnin hefur sleppt fyrir borð skatttekjum upp á 35–40 milljarða kr. Útgjöldin hafa aukist nokkuð og þess vegna er undirliggjandi afkoma ríkisins ekki beysnari en þetta og batnar kannski um 2 milljarða frá fjárlögum.

Þá má spyrja eins og var reyndar komið ágætlega inn á í ræðu áðan: Hvar værum við ef ekki væri hagsveiflan sem skilar þó einhverjum tekjuauka inn í stóran hluta hinna almennu tekjustofna? Það er á henni sem núverandi ríkisstjórn flýtur með jákvæða afkomu ríkissjóðs, vegna þess hvað hún hefur sleppt út miklum tekjum á móti og engu öðru. Með öðrum orðum, frú forseti, ef við tækjum hagsveifluleiðréttan mælikvarða á þetta þá er undirliggjandi afkoma ríkisins að versna. Það er auðvitað það sem þarf að gera. Það þarf að horfa í gegnum hagsveifluna líka og reyna að sjá fyrir sér hvernig undirliggjandi rekstur þróast. Hann er að veikjast vegna þess að menn hafa sleppt út miklu meiri tekjum en þeir hafa dregið úr útgjöldum á móti. Það er einfalt dæmi. Menn lifa ekki endalaust á þenslutekjum. Þær geta gufað upp eins og dögg fyrir sólu og eftir stendur veikari tekjugrunnur ríkisins, byggður á hinum traustu tekjustofnum. Þetta er að gerast. Það er eins gott fyrir núverandi ríkisstjórn að ekki slái í bakseglin að ráði í efnahagsmálum fyrir kosningar til þess að hún geti hælst um af heimsmetum og öllu slíku.

Svo kom mantran um það að nú væri ávinningurinn af skattstefnu ríkisstjórnarinnar farinn að skila sér. Við heyrðum hana frá hv. þm. Willum Þór Þórssyni, að þetta væri allt því að þakka að ríkisstjórnin hefði lækkað skatta og tekjurnar væntanlega aukist vegna þess. Heyr á endemi! Það sem hér er auðvitað að gerast er það, það er gott svo langt sem það nær, að áframhaldandi bati í hagkerfinu frá síðari hluta árs 2010 er jafnt og þétt að létta okkur róðurinn. Það er vel og við gleðjumst á hverjum degi yfir því á meðan áfram gengur vel. Við skulum samt rýna í undirliggjandi staðreyndir mála, ekki falla í freistni þess að ræða þetta í pólitískum frösum eins og þeim að hér séu nú ávextirnir að falla af trjánum vegna gáfulegrar skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Hún er ekki gáfuleg. Hún er ekki mjög ábyrg. Við höfum séð þetta áður. Við höfum séð menn halda því fram áður að hægt sé að lækna allt með skattalækkunum. Hvernig fór það svo þegar hagkerfið (Forseti hringir.) fór í harðalás og bakslag? Þá var staðan ekki beysin. Þá var afkoman ekki góð. (Forseti hringir.) Þess vegna verður að gera kröfur til þess að menn horfi aðeins í gegnum hagsveifluna (Forseti hringir.) og rýni þetta til lengri tíma.