145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann ræddi nokkuð minn málflutning þannig að það er sjálfsagt og eðlilegt að fara aðeins yfir það. Arðgreiðslurnar — áætlunin er unnin hjá þessari stofnun sem fer með eignarhlutinn, hennar tillaga er tekin. Ef menn eru að gagnrýna þá stofnun þá er það sjálfsagt, það má gagnrýna alla hluti. En þannig er þetta til komið.

Hvað er verið að flýta sér að selja? Það var í síðustu ríkisstjórn sem var ákveðið að setja inn í fjárlögin að selja Landsbankann, 30% og eignarhlutinn, og það hefur ekki enn verið gert. Þannig að það er augljóslega ekki neinn gríðarlegur hraði á því.

Markaðsbrestur þegar talað er um Íbúðalánasjóð; það er talað um að einkavæða hagnaðinn og ríkisvæða kostnað. Sú leið var farin að taka ekki sérstaklega á veiku svæðunum, köldu svæðunum, heldur fara í allt saman, og kostnaðurinn hefur verið gríðarlegur fyrir skattgreiðendur. Sú leið sem var farin var ekki sú að taka það út þar sem var markaðsbrestur heldur vera í öllu saman og niðurstaðan er á þann veg að skattgreiðendur hefðu ekki getað tapað meira á þessu. Það er ekki nokkur einasta leið.

Það tók því miður of langan tíma að samræma vaskinn, en talandi um ferðaþjónustu þá held ég að við séum öll sammála um að við ættum að samræma hann enn frekar.

Veiðileyfagjöldin voru tekin sérstaklega af smærri og meðalstórum fyrirtækjum sem hv. þingmaður þekkir vel úr sínu kjördæmi. Kannski hefðum við átt að ganga fram þannig að enn meiri samruni yrði á því sviði en ég held að það sé eitthvað sem mönnum fyndist ekki mjög gott.

Varðandi ljósleiðarana þá var til dæmis sett hér í Reykjavík opinbert fyrirtæki sem fór á hausinn, Lína.Net, sem átti að ljósleiðaravæða. Þannig að það er ekki bara hagnaðarvon í því dæmi og langur vegur frá því.

Ég vil síðan spyrja hv. þingmann af því nú er ekkert sem mælir gegn því að Morgunblaðið og rúta með farþega og rúta með póstinn nái saman um ferðir ef þeir vilja: Telur hv. þingmaður að stjórnmálamenn eigi að skipuleggja þessa hluti? Telur hann að ástandið væri betra ef að við mundum nú bara reyna að skipuleggja þetta héðan frá Alþingi eða af framkvæmdarvaldinu?