145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans og fyrir að draga tillögu sína til baka. Ég heiti honum því að þessi góða ábending, tillaga hans, verður tekin til endurskoðunar í ráðuneytinu og komi síðan inn á þing. Ég bendi mönnum á að í breytingartillögum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra, í samráði við hlutaðeigandi ráðherra, skal láta vinna frumvarp um ný ákvæði er taki til stýringar á ferðaþjónustunni með hliðsjón af reglum um almannarétt og á grundvelli náttúruverndar og nauðsynlegrar auðlindastýringar sem nýting ferðaþjónustunnar á náttúrunni hefur óhjákvæmilega í för með sér. Stefnt skal að því að ráðherra leggi fram frumvarp þess efnis í síðasta lagi á haustþingi 2017.“

Ég segi ekki að þetta falli algjörlega að máli hv. þingmanns, þarna verið að tala um almannaréttinn. En þó er það svo að þetta er nýting á náttúrunni og eins og hv. þingmaður gat um er það vitaskuld til vansa þegar maður sér kókflöskur eða hvað annað rusl á okkar viðkvæmu svæðum, svo sem eins og á hálendi landsins. Þá finnst manni orðið „ósnortin“ víðerni ekki alveg vera ekta. Þess vegna segi ég að ég mun taka tillögu hv. þingmanns strax til skoðunar í ráðuneytinu.