145. löggjafarþing — 31. fundur,  11. nóv. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:54]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er kominn með hálfgert samviskubit yfir því að hafa dregið þessa tillögu til baka. Ég held hins vegar að við munum, og er sannfærður eftir þessa umræðu, ég tala nú ekki um það þegar ég er búinn að fá sjálfan hv. þm. Össur Skarphéðinsson með mér í lið, að ekkert muni stoppa þetta hjá hv. Alþingi um leið og við komum þessu á dagskrá aftur. Þá getur hins vegar enginn sagt að málið hafi ekki verið skoðað ofan í kjölinn því að þegar við félagarnir, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem er núna kominn með mér í þessa vegferð, og það er komið skráð inn í þingtíðindi — enginn getur haldið því fram að við séum eitthvað að lauma þessu inn á elleftu stundu í mikilli tímaþröng. Við erum búnir að kynna málið gaumgæfilega. Ef eitthvað er hefur hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutt mun betri ræður um ágæti þessa máls en ég. Ég er honum þakklátur. Ég skil hins vegar ekki af hverju hann vill ekki kannast við það að ég sé friðarins maður en við ræðum það bara betur á kaffistofunni, virðulegi forseti.