145. löggjafarþing — 32. fundur,  12. nóv. 2015.

landbúnaðarháskólarnir.

[11:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Enn á ný þakka ég hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu vegna þess að þetta er hluti af háskólastefnunni hér ásamt auðvitað mikilvægum áherslum í byggðamálum. Þetta tvennt þarf að samtvinna þannig að gæði háskólastarfsins og gæði þeirra háskólagráðna sem nemendur afla sér séu alveg örugglega eins mikil og hægt er. Það þarf að vera í forgrunni, en um leið þarf að horfa til byggðasjónarmiða.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að fyrir einstök svæði þar sem þessar stofnanir eru starfandi þá skiptir starfsemin gríðarlega miklu máli. Það mun ekki verða svo um langa framtíð ef gæði námsins þarna standast ekki samanburð. Þá mun fjara undan stofnununum. Það sem við erum að leita eftir er að tryggja það að stofnanirnar geti áfram starfað heima í héraði og boðið (Forseti hringir.) upp á full gæði. Ég ber fullt traust til starfsfólksins (Forseti hringir.) til þess að sinna því, en við þurfum auðvitað að styðja við það í þeirri viðleitni.