145. löggjafarþing — 33. fundur,  12. nóv. 2015.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég vil líta svo á að við séum að taka ákveðin skref fram á við og er ástæðan fyrir því að ég vildi geta þess sérstaklega í ræðu minni í upphafinu, þetta frumvarp er liður í stærra máli. Ég geri mér fulla grein fyrir að það þarf að gera ýmislegt fleira en þetta, en mín skoðun er sú að hér sé verið að stíga ákveðin skref fram á við frá gildandi rétti. Ég held að það sé vel.

Hins vegar vitum við að þetta er áframhaldandi þróun sem við munum verða í á næstu árum og verðum alltaf í þegar kemur að fullnustu refsinga. Frumvarpið hefur verið mjög lengi í smíðum og er byggt eins og ég gat um á niðurstöðu vinnuhóps frá árinu 2010 og unnið hefur verið að þessu jafnt og þétt alveg síðan þá. Þegar það kom í ráðuneytið 2012 hófst vinna með það þar. Það fór í víðtækt umsagnarferli. Ég hygg að tekið hafi verið tillit til fjöldamargra umsagnaraðila. Tekið var tillit til tiltekinna þátta í umsögn Afstöðu og ég veit að Afstaða, félag fanga, telur það þurfa ganga mun lengra. Ráðuneytið taldi ekki hægt á þessu stigi að ganga lengra með þetta tiltekna mál. Málið fer núna í þinglega meðferð.

Ég vil hins vegar taka fram og finnst skipta máli að það eru svo margir kubbar undir þegar við tölum um fullnustu refsinga og fangelsismál. Hér erum við að tala um afmarkaðan þátt málsins. Það eru aðrir þættir eins og ég nefndi áðan. Þá nefni ég til dæmis samfélagsþjónustu og aðra þætti. Vissulega þarf líka að líta til betrunarþróunar þeirra hluta. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi. Ég held að mikilvægt sé fyrir nefndina þegar hún fer að fjalla um málið að líta á þetta dálítið heildstætt og ég held að ráðuneytið muni svo sannarlega koma með þá vinnu sem nú er hafin í ráðuneytinu og leggja fyrir nefndina svo menn sjái hvað (Forseti hringir.) verið er að hugsa þar. Þannig held ég að við þokumst áfram í málaflokknum.