145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

327. mál
[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans. Það er vandmeðfarið mál að ræða tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland nú þegar við erum í skugga hryðjuverkaárása, ekki aðeins úti í hinum fjarlæga heimi heldur einnig nær okkur í Evrópu eða í París. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra þegar hann talar um að við þurfum að sýna hófsöm viðbrögð í kjölfar hryðjuverkaárásanna en að við getum heldur ekki látið eins og ekkert sé. Ég vil segja að sem betur fer finnst mér umræða hér fyrr í dag benda til þess að hv. þingmenn séu meðvitaðir um þetta. Ég held að mikilvægt sé að fara með því hugarfari inn í umræðuna um þessa þingsályktunartillögu.

Hæstv. ráðherra rakti ágætlega í ræðu sinni feril mótunar þingsályktunartillögunnar frá þingmannanefnd sem skipuð var árið 2011 og, eins og komið hefur fram, leidd af hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur.

Ég ætla svo sem ekkert að fara að endurtaka þann feril neitt nákvæmlega en vil þó engu að síður vísa í fylgiskjal nr. IV með þingsályktunartillögunni um þjóðaröryggisstefnuna þar sem finna má bókun fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í téðri nefnd. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill leggja sitt af mörkum til að sem víðtækust samstaða sé um stefnu Íslands í þjóðaröryggismálum, stefnu sem tekur mið af breyttum aðstæðum í alþjóðamálum þar sem sagt er skilið við kalda stríðið.“

Þarna segir enn fremur:

„Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur þó að áherslan á aðild að Atlantshafsbandalaginu og þátttöku meðal annars í loftrýmiseftirliti rími illa við þá breiðu nálgun á þjóðaröryggisstefnu sem að öðru leyti er samstaða um.“

Að lokum vil ég vitna í þessa bókun þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fulltrúar VG í nefndinni standa því ekki að þeim tillögum nefndarinnar er lúta að og/eða leiða af aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en styðja tillögurnar að öðru leyti.“

Undir þetta skrifa hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og fyrrverandi þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Árni Þór Sigurðsson. Ég vildi halda þessu til haga inn í umræðuna.

Þá nánar að þingsályktunartillögunni sjálfri um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Mér finnst jákvætt að í fyrsta tölusetta liðnum, sem hæstv. ráðherra sagði reyndar í ræðu sinni að væru ekki settir fram í neinni sérstakri forgangsröð, hefur orðinu „umhverfis-“ verið bætt við frá því þegar tillagan var lögð fram fyrir ári síðan, þannig að nú segir, með leyfi forseta:

„Að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.“

Þessu fagna ég og finnst þetta vera skref í rétta átt. Ég vil þó taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem talaði um það í andsvörum áðan að ef til vill ætti að gera loftslagsógnunum betri skil í stefnunni. Ég tel að þetta sé eitthvað sem hv. utanríkismálanefnd eigi að taka til verulegrar athugunar og skoða.

Ég ætla ekki að fara að lesa upp alla þessa punkta frá orði til orðs, enda geta allir kynnt sér málið og skoðað það og þess vegna ætla ég aðeins að vísa til þeirra. Mig langar að vísa sérstaklega til 5. liðar en hann fjallar um að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi þar sem litið er til ýmissa þátta eins og jafnrétti kynjanna, baráttu gegn hungri og fátækt og virðingu fyrir mannréttindum og afvopnun, svo eitthvað sé nefnt, og friðsamlegra lausna deilumála.

Ég held að sá liður sé alveg gríðarlega mikilvægur þegar við hugsum um öryggishagsmuni Íslands í hnattrænu samhengi, en það vakti vissulega upp hjá mér spurningar og mér finnst það vera í algjörri andstöðu við þennan lið að í síðustu viku að greiddi Ísland á þingi Sameinuðu þjóðanna atkvæði gegn tillögu um að kjarnorkuvopn verði bönnuð. Hæstv. ráðherra segir að tillagan hjá Sameinuðu þjóðunum feli í sér nýtt ferli sem snúi að því að fækka eða útrýma kjarnorkuvopnum. Ég verð að segja að ég tel það gríðarlega nauðsynlegt, vegna þess að kjarnorkuveldin eru í þessum töluðu orðum að uppfæra kjarnorkuvopnabúr sín. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að við grípum til svolítið harðra aðgerða vegna þess að að mínu mati er kjarnorkuógnin og ógnin af kjarnorkuvígbúnaði aftur að aukast. Það er verið að uppfæra þessi vopn og hugsunin er, alla vega hjá sumum, að reyna að búa til það sem kallað er strategísk kjarnorkuvopn sem hægt er að beita, ef menn telja að hægt sé að beita þeim, í staðbundnum hernaði. Þetta held ég að sé alveg gríðarlega mikil hnattræn ógn sem verði að bregðast við.

Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að benda á að hv. þingheimur getur brugðist við því að ég ásamt fleiri hv. þingmönnum hef lagt fram þingsályktunartillögu sem er í raun samhljóða þeirri tillögu sem Ísland greiddi atkvæði gegn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þingið getur í rauninni enn þá gripið inn í og brugðist við því og bannað kjarnorkuvopn. Vonandi get ég mælt fyrir tillögunni áður en of langur tími er liðinn.

Svo langar mig líka að nefna að ég er sérstaklega ánægð með 9. liðinn í þessari tillögu um að friðlýsa eigi íslenska landhelgi fyrir kjarnorkuvopnum. Þó svo að kjarnorkuvopn séu kröftugri og skaðvænlegri en svo að þau virði landamæri eða efnahagslögsögu þá tel ég að þetta skipti máli í hinu stóra hnattræna samhengi og kallist í rauninni á við 5. liðinn. Ég ítreka þess vegna að mér finnst leiðinlegt að Ísland skyldi hafa greitt atkvæði gegn þessari tillögu.

Að því sögðu langar mig að segja að ég tel að hv. utanríkismálanefnd eigi að skoða þá uppröðun liða sem þingsályktunartillagan er sett upp í vegna þess að sé hún annars vegar lesin og hins vegar greinargerðin með frumvarpinu þá tel ég að þó svo að hæstv. ráðherra segi að upröðunin sé ekki sett fram í neinni sérstakri forgangsröð muni fólk lesa hana á þann hátt. Mér finnst ósamræmi milli þeirrar flokkunar og þeirrar hættu sem settar eru í forgang annars vegar og svo þeirra punkta sem hérna koma fram þar sem hernaðarógnin fær alveg gríðarlega mikla umfjöllun en er engu að síður sett ein núna í 3. flokk um hættur sem ólíklegt er að muni steðja að Íslandi eða vega að fullveldi og sjálfstæði landsins. Þetta tel ég vera eitthvað sem hv. utanríkismálanefnd eigi að fara vel yfir og skoða.