145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

höfundalög.

333. mál
[17:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi 145. löggjafarþing er boðað að lögð verði fram fimm frumvörp til breytinga á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum. Þrjú frumvarpanna varða innleiðingu tilskipana á sviði höfundaréttar sem hafa þegar verið teknar upp í EES-samninginn. Þau eru í fyrsta lagi frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 77/2011 frá 27. september þessa árs um breytingu á tilskipun nr. 116/2006, um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda.

Í öðru lagi er frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28, um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum, sem lagt hefur verið fram á Alþingi sem þingmál nr. 334.

Í þriðja lagi er frumvarp um innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26, dagsett 26. febrúar þessa árs, um sameiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum á innri markaðnum.

Önnur frumvörp eru frumvarp um tilteknar breytingar á 11. gr. höfundalaga um eintakagerð til einkanota að ósk samtaka rétthafa sem fara með innheimtu höfundaréttargjalds samkvæmt 6. mgr. 11. gr. laganna og svo það frumvarp sem lagt hefur verið fram á Alþingi sem 33. þingmál.

Í fimmta lagi er frumvarp um breytingu á I. kafla höfundalaga um endurskoðun á fyrirkomulagi svonefndra samningskvaðaleyfa sem hér er um að ræða sem er liður í heildarendurskoðun höfundalaganna. Það er þingmál nr. 333.

Endurskoðun höfundalaga vegna tækni- og samfélagsbreytinga hefur verið til umræðu á Alþingi allt frá árinu 1991. Sú heildarendurskoðun höfundalaga sem nú stendur yfir hófst í október 2009. Við það tækifæri kynnti fyrirrennari minn í embætti, hv. alþingismaður, þáverandi hæstv. ráðherra, Katrín Jakobsdóttir, svonefnd leiðarljós fyrir endurskoðun höfundalaga. Þau eru svohljóðandi:

1. Höfundalög þurfa að vera skýr og auðskiljanleg.

2. Áhersla er lögð á að haldið sé lagasamræmi við önnur norræn höfundalög.

3. Efla þarf virðingu fyrir höfundarétti með tilliti til menningarlegrar og efnahagslegrar þýðingar hans fyrir samfélagið.

4. Réttarúrræði fyrir rétthafa þurfa að vera skilvirk og hafa forvarnagildi.

5. Stuðla ber að því að notendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð.

6. Höfundalög ættu að stuðla að jafnvægi á milli rétthafa og notenda.

7. Leiðbeiningar og fræðsla um höfundarétt fyrir rétthafa sem og notendur.

8. Áhersla er lögð á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs á sviði höfundaréttar.

Upphaflega stóð til að heildarendurskoðun höfundalaga færi fram í áföngum og væri að fullu lokið árið 2012. Þau áform gengu þó ekki eftir, m.a. vegna fjárskorts, en verkefnið hefur ekki haft sérstaka fjárveitingu á fjárlögum. Því má ætla að vinna við heildarendurskoðun höfundalaganna muni standa áfram um nokkurt skeið en þó vil ég segja að verkinu miðar svo sem ágætlega áfram þótt enn eigi auðvitað eftir að fjalla um þetta á þinginu.

Fyrsti áfangi endurskoðunar höfundalaga kom fram í frumvarpi sem varð að lögum nr. 93/2010 þar sem hugað var að starfsumhverfi bókasafna, afnotum sjón- og heyrnarskertra af höfundavörðu efni og tekin upp skilvirk úrræði til að bregðast við höfundaréttarbrotum, þar með talin heimild til að setja lögbann á aðgengi að vefsíðum sem taldar eru uppspretta ólöglegrar dreifingar á höfundaréttarvörðu efni.

Það frumvarp sem hér er mælt fyrir felur í sér annan og þriðja áfanga í heildarendurskoðun höfundalaga.

Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er lagt til að færa I. kafla höfundalaga þar sem fjallað er um réttindi höfunda o.fl. til samræmis við þróun höfundalaga í öðrum norrænum ríkjum, einkum með tilliti til tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB dagsett 22. maí árið 2001, um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Hins vegar er tilgangurinn með endurskoðun laganna að lögfesta breytt fyrirkomulag á samningskvaðaleyfum. Með samningskvöðum er átt við að ákveðið er með lögum að notendum verka sem varin eru af höfundarétti sem gert hafa samning við höfundaréttarsamtök um notkun á verkum aðildarfélaga eða félagsmanna þeirra, t.d. með ljósritun, skuli einnig vera heimilt að nýta verk höfunda sem standa utan samtakanna. Þetta fyrirkomulag auðveldar notkun verka til hagsbóta fyrir rétthafa og notendur í þeim tilvikum sem um mikla notkun fjölda verka er að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna ljósritun fyrir kennslu eða flutning tónlistar í útvarpi.

Rétt er að benda hv. þingmönnum á að í fylgiskjali I með frumvarpinu er að finna samanburð á ákvæðum gildandi laga og þeim breytingum sem verða ef frumvarpið verður að lögum. Þessi samanburður ætti að auðvelda hv. þingmönnum að glöggva sig á efni frumvarpsins og áhrifum þess.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að einstökum greinum frumvarpsins.

Hvað varðar 1. gr. er það svo að hugtakið eintakagerð fær nýja skilgreiningu. Jafnframt er lagt til að notað verði orðasambandið „að gera verk aðgengileg“ í stað hugtaksins „birting“.

Hvað varðar 2. gr. er þar tilgreint hvenær verk telst löglega birt og hvað telst útgáfa verka sem hefur meðal annars þýðingu fyrir ákvæði II. kafla laganna um takmarkanir sem miðast ýmist við löglega birt eða útgefin verk.

Hvað 3. gr. varðar er lagt til að 3. og 4. mgr. í 6. gr. gildandi laga sem fjalla um gagnagrunna falli brott.

Hvað varðar 4. gr. er þar staðfest að hlutir sem njóta verndar samkvæmt lögum um hönnunarvernd, nr. 46/2001, geta notið samhliða verndar samkvæmt höfundalögum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um breytingar á samningskvöðum og ný samningsákvæði. Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði fjögur ný samningskvaðaákvæði. Þá er lagt til að tekið verði upp hugtakið samningskvaðaleyfi um þá heimild sem notendur fá til nota á verkum á grundvelli samningskvaða.

Í 5. gr. er ákvæði sem er nýmæli. Þar er lagt til að opinberum skjalasöfnum og bókasöfnum verði veitt heimild til stafrænnar afritunar af safnkosti sínum og að gera slík afrit aðgengileg almenningi, t.d. á veraldarvefnum, að uppfylltum skilyrðum um samningskvaðaleyfi.

Hvað varðar 6. gr. er þar fjallað um endurbirtingu listaverka í almennu fræðsluefni í sambandi við gagnrýni og vísindalega umfjöllun. Ákvæðið felur í sér töluverða breytingu og útvíkkun samningskvaða frá gildandi lögum. Með því að gera samninginn er veitir samningskvaðaleyfi er notanda auðveldað að afla heimilda, t.d. þegar um endurbirtingu margra verka í einu lagi er að ræða, svo sem við útgáfu alfræðirita. Sú heimild til samninga sem fæst með 6. gr. frumvarpsins er meðal annars til þess fallin að leysa langvarandi deilumál milli listasafna og Myndstefs um endurgjald fyrir birtingu safnmunaskráa á veraldarvefnum.

Vík ég þá að 8. gr. Því ákvæði sem þar er birt er ætlað að koma í stað samningskvaðaákvæðis um ljósritun sem er að finna í 15. gr. a í gildandi lögum en með víðtækara gildissviði sem nær nú til eintakagerðar af útgefnum verkum til notkunar innan stofnana, samtaka og fyrirtækja vegna eigin starfsemi þeirra, þar með talið upptökur úr hljóðvarpi og sjónvarpi.

Í 9. gr. er ákvæði sem er nýmæli. Lagt er til að opinberar stofnanir geti samið um leyfi til að gera eintök af upptökum og útsendingum hljóðvarps og sjónvarps til afnota fyrir blinda, sjónskerta og heyrnarlausa.

Í 10. gr. er fjallað um heimild til útsendinga á útgefnum verkum í útvarpi vegna annars opinbers flutnings sem ekki felur í sér miðlun efnis.

Í 11. gr. er fjallað um endurvarp hljóðvarps- og sjónvarpsútsendinga um kapalkerfi.

Í 12. gr. er ákvæði sem er nýmæli. Með því er lagt til að útvarpsstöðvar geti samið um leyfi til endurnýtingar á verkum úr safni sínu. Tilgangur ákvæðisins er að auðvelda útvarpsstöðvum uppgjör við rétthafa þegar veittur er aðgangur að áður útsendu efni úr safni þeirra, t.d. eftir pöntunum, með því að það er gert aðgengilegt á netinu eða þegar um endurútsendingu er að ræða. Ég tel mikilvægt út frá menningarlegu sjónarmiði að hægt sé að endurnýta eldra efni útvarpsstofnana, bæði Ríkisútvarpsins og einkarekinna útvarpsstöðva.

Ég vil vekja sérstaka athygli á a-lið 2. mgr. 14. gr. Þar er ákvæði sem er nýmæli. Með því er lagt til að tekin verði upp almenn heimild til samninga um leyfi til nota á verkum í afmörkuðum, vel skilgreindum tilvikum. Með tilkomu netsins og þeim nýju miðlunarmöguleikum sem það býður upp á er ljóst að um fleiri og fleiri tilvik getur verið að ræða þar sem nauðsyn er á einföldum leiðum til að semja um víðtæka notkun, t.d. innan safna vegna varðveislu og miðlunar menningararfsins án þess að til lagasetningar þurfi að koma í hvert sinn.

Í 14. gr. b frumvarpsins er mælt fyrir um rétt rétthafa til þóknunar fyrir afnot verka þeirra á grundvelli samningskvaðaleyfis.

Í 14. gr. c er nýmæli um sáttaumleitan ef næst samningur um afnot verka með samningskvaðaleyfi. Heimilt verður að óska eftir sáttameðferð hjá sérstökum sáttasemjara sem tilnefndur er af ráðherra.

15., 16., 18., 20., 21., 23. og 26. gr. fela í sér uppfærðar tilvísanir milli ákvæða í höfundalögum með hliðsjón af öðrum breytingum samkvæmt frumvarpinu.

Í 17. gr. frumvarpsins er brottfelling 45. gr. a í lögunum. Í stað hans mun koma tilvísun í 3. mgr. 45. gr. laganna til 23. gr. a eins og lagt er til að henni verði breytt með 11. gr. frumvarpsins.

22. gr. frumvarpsins felur í sér brottfellingu 53. gr. a í lögunum og í stað þess kemur ný 4. mgr. 26. gr. a í lögunum, samanber a-lið 4. mgr. 14. gr. frumvarpsins.

Í 24. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 57. gr. höfundalaga um úrskurðarnefndir í höfundaréttarmálum til samræmis við aðrar breytingar sem leiða af frumvarpinu, þar með talið ákvæði um sáttanefnd í 14. gr. c frumvarpsins.

Vík ég nú umræðunni að breytingum á lögbannsheimild samkvæmt 59. gr. a í höfundalögunum. Í 25. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um tvenns konar breytingar á 59. gr. a í höfundalögunum. Annars vegar er um að ræða uppfært orðalag í 1. mgr. 59. gr. a með tilliti til annarra breytinga sem felast í þessu frumvarpi. Hins vegar er mælt fyrir um þá breytingu á 2. mgr. 59. gr. a að gefa skuli þjónustuþega í skilningi laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, kost á að gæta hagsmuna sinna við fyrirtöku lögbannsaðgerðar eftir því sem því verður við komið. Til skýringar er hugtakið þjónustuþegi notað yfir þann aðila sem stendur fyrir meintri ólögmætri dreifingu höfundaréttarvarins efnis og lokun á netaðgangi beinist gegn. Eftir gildistöku laga nr. 93/2010 sem innleiddu heimildina til að krefjast lögbanns á þjónustu milliliða, eins og fjarskiptafyrirtækja, hafa komið fram ábendingar um að hagsmuna þjónustuþega sé ekki nægilega gætt við málsmeðferð kröfu um lögbann við því að fjarskiptafyrirtæki miðli gögnum frá tiltekinni vefsíðu. Frumforsenda fyrir því að slíkur þriðji aðili geti gætt hagsmuna sinna í lögbannsmáli er að honum berist vitneskja um fyrirtöku þess og niðurstöðu. Fái hann í hendur tilkynningu um fyrirtöku lögbannsmáls sem beinist að þjónustu sem hann veitir getur hann tekið upplýsta ákvörðun um að neyta réttar síns samkvæmt 14. gr. laga nr. 31/1990 eða með því að óska eftir meðalgöngu í staðfestingarmáli á lögbannsaðgerð sem höfðað er fyrir dómstólum samanber 20. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Þess ber þó að gæta að oft liggur ekki fyrir hver fyrirsvarsmaður vefsíðu er eða hvar hann sé að finna og því ekki unnt að uppfylla kröfu um tilkynningarskyldu til viðkomandi. Af þeim sökum er fyrirvari settur um aðgerðir samkvæmt ákvæðinu eftir því sem við verður komið.

Eins og rakið er í V. kafla í almennum athugasemdum með frumvarpinu komu fram athugasemdir í samráðsferli frumvarpsins frá samtökum tónskálda og textahöfunda þess efnis að lögbannsheimild á þjónustu milliliða sem kom til með lögum nr. 93/2010 hefði reynst rétthöfum torsótt í framkvæmd og þar með einkum vísað til málsmeðferðar hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík. Þessi umræða hefur vakið mig til umhugsunar um, og ég hef áður nefnt það í þingsal, hvort ástæða sé til að hv. allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis taki til sérstakrar athugunar við meðferð þessa frumvarps og þá í samráði við innanríkisráðuneytið hvort ástæða sé til að lögfesta beinan aðgang rétthafa að flýtimeðferð hjá héraðsdómi í slíkum málum án þess að fyrst sé leitað til sýslumanns. Í þessu sambandi vil ég árétta þá skoðun að ég tel að það eigi að vera verkefni dómstóla að mæla fyrir um lokun aðgangs að vefsvæðum sem talin eru uppspretta fyrir ólöglega dreifingu á höfundaréttarvörðu efni. Það er í það minnsta mjög til umhugsunar að það sé verkefni stjórnsýslustofnana að mæla fyrir um einhvers konar ritskoðun eða lokun á netinu. Þá þarf samt sem áður að hafa það mjög í huga að tíminn skiptir máli ef um er að ræða dreifingu á ólöglegu efni. Ef þetta verður niðurstaðan þarf þannig að gera slíkar breytingar sem ég mæli með að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði. Það þarf að vera tryggt að málsmeðferðin og málshraðinn sé nægur en þó þannig að hagsmunir allra séu tryggðir. Þess vegna er hér lagt til að tryggja hagsmuni þeirra sem eru þjónustuþegar og að þeir hafi upplýsingar um hvar mál séu stödd.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni er þetta frumvarp afrakstur annars og þriðja áfanga í heildarendurskoðun höfundalaga sem er orðin mjög brýn vegna örrar þróunar á sviði tækni og samfélags. Einnig skiptir máli að fylgt verði eftir þróun í löggjöf nágrannaríkja Íslands hvað þetta varðar.

Í ítarlegri greinargerð með frumvarpinu er farið dýpra yfir hverja efnisgrein þess og þau atriði sem ég hef tæpt á í ræðu minni. Þá minni ég enn og aftur á fylgiskjal með frumvarpinu þar sem borin eru saman ákvæði gildandi laga og breytingar sem felast í frumvarpinu.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.