145. löggjafarþing — 35. fundur,  17. nóv. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 28/2015 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

185. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka EES-samningsins, en hann fjallar um flutningastarfsemi og að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 452/2014, um tæknilegar kröfur og um stjórnsýslumeðferð er varðar flugrekstur. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Rúnar Guðjónsson frá innanríkisráðuneytinu. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar til að fella inn í EES-samninginn reglugerð um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugrekstur flugrekanda frá þriðja landi inn á EES-svæðið. Með þessu á umsóknarferli fyrir flugrekendur frá þriðja landi að vera einfaldara og skilvirkara. Þannig verður Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA, gert að sjá um vottun fyrir þá flugrekendur sem óska eftir að þjónusta flug inn á EES-svæðið út frá flugöryggislegum sjónarmiðum. Sú þjónusta verður miðlæg fyrir EES-svæðið en áður þurftu flugmálayfirvöld í hverju ríki fyrir sig að leggja sjálfstætt mat á flugöryggi viðkomandi. Ríkin geta eftir sem áður hafnað slíkri beiðni en ef Flugöryggisstofnunin synjar umsóknaraðila um leyfi til flugs geta ríkin ekki gengið gegn því og heimilað flug innan svæðisins.

Sú breyting sem hér er lögð fram er því í sjálfu sér ekki eðlisbreyting heldur er verið að auka skilvirkni og einfalda vinnu stjórnvalda. Reglugerð Evrópusambandsins nr. 452/2014, sem hér er lagt til að verði felld inn í EES-samninginn, felur líka í sér ítarlegri reglur um flugrekendur frá þriðja landi sem starfrækja loftför sem skráð eru í þriðja landi eða í aðildarríki sem hafa falið þriðja ríki lögbundið öryggiseftirlit. Þegar hafa verið gerðar breytingar á lögum nr. 60/1998, um loftferðir, sem skapa lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðarinnar með stjórnvaldsfyrirmælum. Bætt var við ákvæði sem heimilar ráðherra að setja reglugerðir til að innleiða EES-gerðir sem varða verkefni á sviði Flugöryggisstofnunar Evrópu, EASA, sem rúmast innan reglugerðar um stofnun EASA og teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Innleiðing reglugerðarinnar kallar því ekki á lagabreytingar. Gert er ráð fyrir að innleiðing gerðarinnar hafi jákvæð áhrif á stjórnsýslu og stuðli að auknu flugöryggi.

Utanríkismálanefnd leggur því til að tillagan verði samþykkt og rita nöfn sín undir hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður nefndarinnar, undirritaður Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Frosti Sigurjónsson og Björn Valur Gíslason.

Hv. þingmenn Elín Hirst, Óttarr Proppé og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.