145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í nýlegum mannfjöldatölum Hagstofunnar kemur fram að brostinn er á fólksflótti frá Íslandi, sá mesti síðan eftirhrunsárið 2009 þegar Íslendingar glímdu við efnahagshrun og alvarleg eftirköst þess. Á síðasta ári fluttu 3.400 Íslendingar af landi brott og hafa aldrei verið fleiri síðan 2009.

Ríkisstjórn jafnaðarmanna sem þá sat að völdum fékk það verkefni að endurreisa samfélag okkar eftir fjármálafyllirí hægri aflanna og gerði það. Henni tókst það sem talið var ómögulegt, að rétta þjóðarskútuna við og búa í haginn fyrir þann hagvöxt og batnandi efnahag sem núverandi ríkisstjórn fékk í arf.

En hvernig hefur hægri stjórnin sem nú situr farið með þann bata sem hún fékk upp í hendurnar? Merkin sýna verkin. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir afhenti lyklana að Stjórnarráðinu 2013 voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta aðeins 36. Á síðasta ári var sambærileg tala komin í 760 sem er raunfækkun íslenskra ríkisborgara.

Við búum hér við ónýtan gjaldmiðil sem heftir bæði atvinnulíf og almenn lífskjör. Það fólk sem á þess kost að fara af landi brott, ekki síst unga og menntaða fólkið, forðar sér og 70% þess fara til Norðurlanda þar sem þess bíður samfélagskerfi reist á stefnu jafnaðarmanna, þar sem við tekur hagkerfi og velferðarkerfi sem rísa undir nafni.

Hér á Fróni næða kaldir og saggafullir vindar, sjálfar samfélagsstoðirnar eru veiklaðar eftir meðferð þeirrar hægri stjórnar sem nú situr, stjórnar sem hlífir útgerðarauðvaldinu við álagningu, (Forseti hringir.) hækkar álögur á mat, breytir skattkerfinu til hins verra — og Íslendingar flýja land.


Efnisorð er vísa í ræðuna