145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:41]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir mjög góða ræðu.

Það sem er sláandi í málflutningi hennar og manni finnst vera svo mikið rétt er að spyrja hvernig standi á því að menn séu tilbúnir að sundra bærilegri sátt sem hefur ríkt um þessa stofnun og þetta svið núna í alllangan tíma eða frá því að lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands voru sett árið 2008. Hvers vegna í ósköpunum ætla menn að rjúfa þá sátt?

Hv. þingmaður tekur undir þau sjónarmið og ég hef áður tekið undir sjónarmið annarra um að við bíðum eftir niðurstöðu í nefnd OECD, sem gengur undir skammstöfunarheitinu DAC og er þróunarsamvinnunefnd OECD, sem er að gera úttekt meðal annars á fyrirkomulagi okkar. Við látum næsta ár líða, fáum þá úttekt í hendur og tökum síðan til við að ræða málið að nýju.

Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til að taka undir þetta sjónarmið hv. þingmanns. En fyrst ég er kominn í andsvar langar mig til að beina einni spurningu til hv. þingmanns, sem er náttúrulega fyrst og fremst vangaveltur, og heyra sjónarmið hennar. Ég staðhæfði hér að ástæðan fyrir því að við erum stödd þar sem við erum stödd núna eru hrossakaup á ríkisstjórnarheimilinu, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu að semja sín í milli. Ég fæ þetta, þú færð hitt. Sjálfstæðisflokkurinn vilji fá frumvarp um opinber fjármál. Framsóknarflokkurinn, eða ráðherra þess flokks, vilji fá þetta mál fram.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að við séum að verða (Forseti hringir.) vitni að hrossakaupum á Alþingi?