145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar svo háttar til að aðeins einn af 63 þingmönnum hefur sannfæringu fyrir máli en tugir þingmanna ríkar efasemdir um er eiginlega lágmarkskrafa að þessi eini þingmaður sem hefur sannfæringu fyrir málinu, hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, sé við umræðuna þannig að það sé einhver til þess að tala fyrir málinu, því það er enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins og enginn þingmaður Framsóknarflokksins sem hefur neina sannfæringu fyrir málinu, það höfum við auðvitað fengið að heyra hér í umræðum dögum saman um þetta mál.

Það er með miklum ólíkindum að málið sé keyrt á dagskrá dag eftir dag í fjarveru hæstv. utanríkisráðherra og hlýtur að vekja spurningar um hvort það sé svona mikið kappsmál að ljúka málinu til þess að unnt sé að ráðast í þær breytingar á ríkisstjórninni sem boðaðar hafa verið.