145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Í nóvember 2012 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þingsályktunartillagan felur í sér að Alþingi skipi rannsóknarnefnd sem rannsaki einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf., og Búnaðarbanka Íslands hf. til samræmis við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68 frá árinu 2011.

Rannsókn á einkavæðingu bankanna á meðal annars að beinast að því að veita heildstætt yfirlit um þá stefnumörkun, ákvarðanatöku og framkvæmd sem réði för við sölu hlutabréfa í bönkunum þremur, svo draga megi lærdóm af ferlinu við mótun stefnu um hvernig best verði staðið að sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum í framtíðinni. Sjálfstæð og óháð rannsókn fari fram á sölu ríkisbankanna árið 2002 sem og á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins árið 1998.

Rannsóknarnefndin á meðal annars að taka til umfjöllunar þá stefnu og þau viðmið sem lágu til grundvallar einkavæðingu bankanna og að hve miklu leyti þeim var fylgt í ákvarðanatöku og framkvæmd einkavæðingarinnar, bera einkavæðingu íslenskra banka saman við sölu opinberra fjármálafyrirtækja í nágrannalöndunum, leggja fram tillögu til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum í framtíðinni og leggja mat á þær afleiðingar sem framkvæmd einkavæðingar bankanna hafði fyrir íslenskt samfélag.

Frú forseti. Ég tel að ekki eigi að selja eignarhluti ríkisins í bönkunum fyrr en þessari samþykktu þingsályktunartillögu hefur verið framfylgt. Niðurstöður rannsóknarinnar verði síðan notaðar til að móta stefnu og viðmið fyrir sölu á eignarhlut í bönkunum ef arðbært þykir að ríkið selji eignarhlutina. Okkur liggur ekkert á.