145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ef menn taka þetta út úr faglegu og skýru formi, sem er Þróunarsamvinnustofnun, sé mikil óvissa fram undan. Þegar starfsemin er komin inn í ráðuneyti er farið allt öðruvísi með hlutina. Það er verið að leggja stofnun niður. Með öðrum orðum: Núna verður þetta deild inni í ráðuneyti og þar með er aðkoma okkar og eftirlit með allt öðrum hætti og miklu óskýrari. Það er það sem maður óttast. Hvað verður um fagþekkinguna? Ég trúi því alveg að fagmennirnir muni alltaf berjast fyrir því að gera hlutina eins vel og umgjörðin leyfir þeim. En ég held að það sé betra fyrir þá að vera með skýrari umgjörð eins og Þróunarsamvinnustofnun en að vera inni í einhverju grauteríi í ráðuneytinu. Fagþekking verður áfram til staðar en spurningin er hvort mönnum og konum sem hana hafa verði gert kleift að nýta hana með sem bestum hætti. Það er það sem ég hef áhyggjur af.

Síðan langar mig að nefna að það sem mér finnst svekkjandi í þessu máli er ekki bara þessi ófaglegheit, að ætla að grauta saman eftirliti og framkvæmd og allt það, heldur líka að menn keyri með þróunarmálin í átakafarveg. Ég hef ekki upplifað það áður. Ég hef aldrei upplifað að menn vilji gera þau að átakamáli í þinginu, þegar þau varða fjármuni sem við sendum til fólks sem þarf á þeim að halda og eru lífsbjörg manna úti í heimi. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og formanns utanríkismálanefndar sem lætur hafa sig út í það að keyra málið með þessum hætti hér í gegn, án almennilegrar yfirlegu, án þess að svara spurningum nefndarmanna, (Forseti hringir.) bara vegna þess að — hvað? Mönnum var lofað því? Við þurfum að horfa faglega á málin og hvað er í húfi þegar við tökum slíkar ákvarðanir.