145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er næstur á mælendaskrá. Ég er í þeim hópi sem hefur ítrekað bæði í gær og í dag óskað eftir nærveru hæstv. utanríkisráðherra til að hægt sé að fylgja eftir spurningum til hans, knýja á um svör og reyna að knýja á um það að hæstv. ráðherra færi einhver rök fyrir máli sínu. Ég segi það alveg hispurslaust, mér er ekki skemmt ef á að knýja mig til þess að flytja mína seinni ræðu, aðalræðu í þessari umræðu, hafandi borið fram þessar óskir, án þess að hæstv. ráðherra sé til staðar. Mér er ekki skemmt, frú forseti. Ég tel að með því sé verið að fótumtroða rétt minn sem þingmanns til þess að eiga orðastað við ráðherra málaflokksins.

Ég gef ekkert fyrir einhverja nýmóðins útskýringar á því að ráðherrar hafi engum skyldum að gegna gagnvart þinginu öðrum en að reka inn nefið til að mæla fyrir frumvörpum. Það er ekki þannig. Mér var kennt það sem ungum ráðherra á hinni öldinni, fyrir 27 árum, að ein af ríkustu starfsskyldum ráðherra væri að sýna Alþingi virðingu og mæta þar og svara fyrir sín mál. Það væri (Forseti hringir.) þingræði í þessu landi. Ég gef ekkert fyrir svona útskýringar. (Forseti hringir.) Ég krefst þess að umræðunni verði frestað áður en ég þarf að halda mína seinni ræðu (Forseti hringir.) og að ég verði ekki látinn halda hana fyrr en ráðherrann er í salnum.