145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

umferð um friðlandið á Hornströndum.

[15:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Ég fagna því að hún hefur áhuga á því að eiga samráð við fólk til þess að reyna að stemma stigu við því sem ég vil kalla vandamál.

Ég efast ekki um að ef Samgöngustofa telur sig ekki hafa heimildir til þess að grípa inn þetta mál þá er í þessum sal vilji til að gera þær breytingar sem hugsanlega þarf að gera á lögum eða öðru til þess að koma í veg fyrir að svona nokkuð eigi sér stað. Ég vil alla vega heita ráðherranum því að ef einhverju þarf að breyta í lögum eða reglum til þess að stemma stigu við því að ferðamenn hópist flokkum saman inn í friðlandið á Hornströndum bakdyramegin þá skal ekki standa á þeim sem hér stendur að styðja hæstv. ráðherrann í því efni.