145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við alþingismenn erum kjararáð aldraðra og öryrkja. Nú þegar kjararáð hefur úrskurðað okkur og æðstu embættismönnum ríkisins afturvirkar kjarabætur þá stendur það upp á okkur, við afgreiðslu fjáraukalaga og fjárlaga, að tryggja þeim sem undir okkur heyra, öldruðum og öryrkjum, afturvirkar kjarabætur.

Það getur ekki gengið að eftir þá erfiðu tíma, sem ekki síst þeir efnaminnstu hafa þurft að ganga í gegnum undanfarin ár, séu allir helstu hátekjuhóparnir í landinu leiðréttir aftur í tímann á kostnað ríkissjóðs að stórum hluta til, en þeir sem minnst bera úr býtum fái ekki afturvirka leiðréttingu. Það er svo hrópleg ósanngirni að ég trúi ekki öðru en tekist geti þverpólitísk samstaða á þinginu um að tryggja öldruðum og öryrkjum kjarabætur aftur í tímann frá sama tíma og annað fólk í landinu. Minna má það ekki vera.

Auðvitað er það um leið sjálfsögð krafa að þessir sömu hópar njóti sömu lágmarkslauna eins og gildir um aðra hópa í landinu, að þessi hópur falli líka undir kröfuna um 300 þús. kr. lágmarkslaun og fái kjarabætur í samræmi við það. En til þess þarf að gera verulegar breytingar á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi eins og við, þingflokkur Samfylkingarinnar, höfum flutt tillögu um og ég hygg að stuðningur sé við í öllum þingflokkum hér á þinginu þó að stjórnarforustan hafi ekki léð máls á því enn.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna