145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[16:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Út af orðum hv. formanns utanríkismálanefndar vil ég segja að ég hef lesið fundargerðirnar. Umsagnarfresti lauk 14. október, fundur var haldinn í utanríkismálanefnd á venjulegum tíma, fimmtudaginn 15. október. Þá bað minni hlutinn um ákveðna gesti og þá tilkynnti varaformaður nefndarinnar að það væri allt í lagi að taka gestina inn daginn eftir, strax um morguninn, en málið yrði samt sem áður tekið út þann dag. Þetta eru ekki vinnubrögð, virðulegi forseti.

Þann 16. október er þessi fundur haldinn á aukatíma utanríkismálanefndar, ekki á venjulegum tíma, og málið rifið út. Ég hef verið formaður þingnefndar og ég hef aldrei þekkt að þetta væri unnið á þennan hátt, að maður boðaði það, um leið og fallist væri á gesti umsagnaraðila, að það skipti í raun engu máli hvað þeir segðu, málið yrði samt sem áður tekið úr nefnd.

Það er þetta sem ég er að gagnrýna líka, það er þessi málsmeðferð. Það getur ekki verið þannig, virðulegi forseti, að þó að mál hafi komið (Forseti hringir.) fram á síðasta þingi þá sé þetta bara einhver sjálfkrafa afgreiðslustofnun núna. Það eru þrír nýir menn í utanríkismálanefnd, þar á meðal formaðurinn, og mér finnst það ósköp eðlilegt að menn hefðu farið yfir þessar umsagnir. Mér er til dæmis til efs að fjallað hafi verið um umsögn Alþýðusambands Íslands. Ég get ekki séð það í fundargerðunum.