145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir allt það sem hv. þingmaður sagði. Ég skora á hv. þm. Þorstein Sæmundsson að koma hér í ræðu og segja mér að honum finnist í lagi að umsagnarfresti ljúki 14. október og að 15. október sé boðað að málið fari úr nefnd án gestakomu, en fyrst minni hlutinn í nefndinni móast við þann dag vegna þess að það er bara fullkomlega óeðlilegt að gera þetta með þessum hætti, sé skellt á fundi á óhefðbundnum fundartíma strax daginn eftir og málið rifið út með fulltingi varamanna í nefndinni. Það er fyrir neðan allar hellur.

Ég vona að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir komi í ræðustól og rökstyðji hvers vegna þessum ömurlegu vinnubrögðum var beitt í þessu máli. Hvað veldur því að menn ákveða að keyra þetta viðkvæma mál með þessum hætti í gegn? Svona lagað þekkist ekki hér og ef þetta eru ný vinnubrögð sem fylgja nýjum þingmönnum Framsóknarflokksins og nýjum stjórnunarháttum hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þá vil ég ekki sjá það vegna þess að svona vinnum við ekki hér.

Það þarf faglega umfjöllun, það á að verða við því ef þingmenn óska eftir að fá gesti og það á að rannsaka, eða að minnsta kosti að sýna fram á að menn hafi klórað í yfirborðið. Það er ekki hægt að segja að ástæðan sé sú að það sé allt í lagi að vinna með þessum hætti vegna þess að málið hafi verið rætt á þinginu á undan, eins og formaður nefndarinnar gerði hér áðan. Hvers vegna falla mál niður milli þinga? Það gerist ef til dæmis þriðjungur nefndarmanna er nýr, eins og í þessu tilfelli, þá er hægt að taka málið fyrir almennilega og sinna þingskyldu sinni.

Já, þetta er örugglega óttalegt vesen, voða leiðinlegt að þurfa að eiga samráð við allt þetta fólk. (Forseti hringir.) En þannig er það bara, til þess erum við erum kjörin (Forseti hringir.) og það er þannig sem við eigum að vinna og við eigum að fylgja þingsköpum.