145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni um vinnubrögðin. Þau eru auðvitað talsvert umhugsunarefni. Það er að mörgu að hyggja í þeim efnum sem tengist kannski stöðu þessa máls sérstaklega.

Nú er þingmál og þingmál ekki endilega það sama. Hér er á ferðinni frumvarp sem í ljós hefur komið að byggir á afar hæpnum röksemdafærslum og í raun og veru ekki röksemdafærslum heldur fullyrðingum í greinargerð sem engin rök eru frekar færð fyrir. Því er bara slengt fram að þetta og hitt sé svo og svo gott, samhæfing og samþætting, án þess að færa fyrir því nein rök í hverju það á að vera fólgið.

Það hefði náttúrlega ekki veitt af vandaðri rannsóknarvinnu. Þegar svo ber undir ber þingnefndinni að fara betur yfir mál en ella, fara ofan í saumana á því og reyna að heyja saman í einhverjar almennilegar röksemdir ef þær finnast. Meiri hlutinn sem ætlar að leggja til afgreiðslu á málinu ber þá skyldu að fylla í þær eyður sem fylgja málinu af hálfu ráðherrans eða sem stjórnarfrumvarpi ef hann vill vinna vinnu sína vel og reyna þá að sannfæra okkur hin um að málið sé þannig vaxið að fyrir því standi góð efnisleg rök.

Tímalínan sem hv. þingmaður rakti bendir til asa sem er í engu samræmi við aðstæður í þessu máli, að í öndverðum nóvembermánuði sé það rifið út úr nefnd á jafn fátæklegum forsendum og raun ber vitni. Það að málið hafi verið lagt fram í fyrra er ekki endilega nein sérstök efnisrök í umfjöllun þingsins á þessu þingi þegar í ljós kemur að málið er mjög umdeilt. Nú man ég ekki nákvæmlega hvar það strandaði í fyrra, en það liggur ljóst fyrir að þetta er ekki einfalt mál sem góð samstaða er um að hljóti afgreiðslu. Menn geta sagt sem svo að ef Alþingi vinnst ekki tími til að ljúka afgreiðslu á óumdeildu máli þá einfaldi það meðferð þess á næsta þingi, en það á ekki við þetta mál. (Forseti hringir.)

Svo ætla ég í seinni andsvari mínu að koma aðeins inn á það sem ég tel líka vera mikinn ágalla á vinnubrögðum (Forseti hringir.) og það er að þessi fundur skuli enn standa og umræðunni fram (Forseti hringir.) haldið án þess að bóli á hæstv. utanríkisráðherra.