145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það eigi líka erindi í þessa umræðu, eins og hv. þingmaður, nefnir hvers eðlis viðfangsefnið sem hér á í hlut er. Þetta er ákaflega viðkvæmur málaflokkur. Það skiptir mjög miklu máli að jafnvel þó að ágreiningur sé til dæmis um hvaða fjármunum menn treysta sér á hverjum tíma til að verja í þetta þá sé umgjörðin um það að öðru leyti traust og reynt sé að varðveita þverpólitíska samstöðu um það hvernig staðið er að málum. Það hefur lengst af verið gert.

Ég get sagt að ég hef oft verið hundfúll yfir því hversu dapurlega Ísland hefur staðið að málum í þessum efnum, hversu seint það hefur gengið að ná hlutfallinu af þjóðartekjum upp eftir að við urðum ein af best megandi þjóðum í heiminum. Þrátt fyrir það og þann ágreining tókst þó alltaf síðustu tvo, þrjá áratugina að standa saman um skipulagið og framkvæmdina. Það var meðal annars gert með því að tryggja að í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar sætu alltaf fulltrúar allra flokka. Hugsunin var sú að tengja alla flokka við þetta viðfangsefni.

Nú er að sjálfsögðu ágreiningur um hvað núverandi ríkisstjórn leggur að mörkum í þessu efni. Við höfum gagnrýnt það að hún hafi horfið frá áformum um að hækka hlutfallið þrátt fyrir batnandi þjóðarhag, en eftir sem áður skiptir máli að við stöndum þó saman um það hvernig þeim fjármunum sem til skiptanna eru á hverjum tíma er varið.

Ég tel líka vera ámælisvert að hæstv. ráðherra skuli ofan í ágreining um metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í viðfangsefninu sem slíku — ríkisstjórnin stendur ekki einu sinni við sín eigin upphaflegu áform um að mjaka þessu upp á við, það er búið að skera það niður núna í fjárlögum og fjárlagafrumvarpi — bæta við ágreiningi um sjálft grundvallarskipulagið. Ríkisstjórnin er að laska þennan málaflokk. Hún er að spilla þeirri samstöðu sem reynt hefur verið að viðhalda um þetta viðkvæma viðfangsefni. Það er auðvitað ámælisvert.